Öskuakstur Bílarnir þyrla upp öskunni sem getur valdið umtalsverðum skemmdum á þeim sé óvarlega farið.
Öskuakstur Bílarnir þyrla upp öskunni sem getur valdið umtalsverðum skemmdum á þeim sé óvarlega farið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Nokkur mál hafa komið upp á síðustu vikum þar sem bílaleigubílar hafa skemmst í öskufalli frá Eyjafjallajökli.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nokkur mál hafa komið upp á síðustu vikum þar sem bílaleigubílar hafa skemmst í öskufalli frá Eyjafjallajökli. Í slíkum tilvikum er það leigutakanna, samkvæmt skilmálum tryggingafélaganna, að bera tjónið og getur kostnaður verið umtalsverður. „Við höfum lent í nokkrum svona málum á undanförnum vikum. Við höfum brugðist við þessu með því að afhenda viðskiptavinum okkar upplýsingablað þar sem þetta er tíundað og vonandi hefur það skilað árangri,“ segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Avis, í samtali við Morgunblaðið.

Tveggja milljóna tjón

Sé ekið til dæmis inn í driftir vikurs og ösku á vegi sem bíll fer út af bæta tryggingarnar slíkt tjón. Lendi ökumaður hins vegar í öskufalli í sandstormi þannig að til dæmis lakk og ljós á bíl skemmist skrifast skaðinn á leigutakann. „Ef þarf að heilsprauta bílinn og skipta um rúður og ljós getur kostnaður farið upp í tvær milljónir,“ segir Björn.

Hjá Avis hafa fjögur til fimm mál í þessum dúr komið upp síðan eldgosið í Eyjafjallajökli hófst. Hjá öðrum bílaleigum er svipaða sögu að segja. Björn segir málin geta verið erfið úrlausnar því oft uppgötvist tjónið ekki í tíma og hugsanlega ekki fyrr en erlendur leigutaki viðkomandi bíls sé kominn til síns heima. Í slíkum tilvikum sé þá allur gangur á því hvort náist í fólk og í versta falli sitji bílaleigan uppi með skaðann. Hvað viðskiptavininn áhrærir nái kortatryggingar á stundum yfir tjón af þessum toga, sem er þó misjafnt frá landi til lands og skilmálum einstakra kortafyrirtækja.

Ætla að funda á föstudaginn

Hedrik Berndsen, stjórnarformaður bílaleigunnar Hertz, segir að vissulega hafi menn áhyggjur af því hve mikið hafi dregið úr komum erlendra ferðamanna hingað til lands. Þá eigi bókanir fyrir sumarið að vera að streyma inn, en lítið sé að gerast. Forsvarsmenn bílaleignanna ætla að funda á föstudaginn og fara yfir þá stöðu sem upp er komin. Nauðsynlegt sé að bæta merkingar á áhrifasvæði eldgossins, svo sem hvað varðar hraðatakmarkanir og þá hættu sem eldgosið getur haft í för með sér á ýmsan hátt.
  • Askan sem kemur úr eldgosinu í Eyjafjallajökli er eins og fínn sandpappír og hefur valdið miklu tjóni á bílum í nokkrum tilvikum.