Hús Samkvæmt fyrstu hugmyndum átti byggingarkostnaður við tónlistarhús að vera um einn og hálfur milljarður króna. Þegar bygging hófst við tónlistarhúsið var gert ráð fyrir 12,5 milljarða króna byggingarkostnaði.
Hús Samkvæmt fyrstu hugmyndum átti byggingarkostnaður við tónlistarhús að vera um einn og hálfur milljarður króna. Þegar bygging hófst við tónlistarhúsið var gert ráð fyrir 12,5 milljarða króna byggingarkostnaði. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Byggingarkostnaður við tónlistarhúsið Hörpu nú áætlaður 27,5 milljarðar *Þar af eru 25,5 milljarðar fjármagnaðir með lántöku *Fjármagns- og rekstrarkostnaður líklega þrír milljarðar hið minnsta *Upphaflega var gert ráð fyrir 12,5 milljarða króna byggingarkostnaði

Fréttaskýring

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Erfitt er að sjá að tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa muni nokkurn tímann standa undir stofnkostnaði, hvað þá að standa undir ávöxtunarkröfu, sem gerð yrði á almennum markaði.

Stofnkostnaður við byggingu hússins verður að minnsta kosti 27,5 milljarðar króna. Af því fé voru tveir milljarðar í reiðufé lagðir inn af Portus og Landsbanka, en afgangurinn hefur verið tekinn að láni.

Þegar hafist var handa við byggingu hússins var gert ráð fyrir því að byggingarkostnaður yrði um 12,5 milljarðar króna, sem er um 19,2 milljarðar á núvirði. Aukning á byggingarkostnaði skýrist að minnsta kosti að hluta af því að ákveðið var að stækka bygginguna eftir að kostnaðaráætlun var gerð.

Eftir að Portus varð gjaldþrota tók félag í eigu ríkis og borgar, Austurhöfn TR, yfir verkið. Það félag tók svo í janúar 17,5 milljarða króna sambankalán hjá Arion banka, Íslandsbanka og Landsbanka til að klára byggingu tónlistarhússins.

Skuldir vegna byggingarinnar nema því nú um 25,5 milljörðum króna að nafnvirði, en Portus hafði áður tekið átta milljarða lán fyrir byggingu hússins. Það lán keypti Austurhöfn af Landsbankanum með nýjum lánum.

Í ljósi reynslunnar af opinberum framkvæmdum er alls ekki útilokað að byggingarkostnaður verði enn meiri en nú er útlit fyrir að hann verði, en margir þættir geta leitt til kostnaðaraukningar.

Milljarður í rekstrarkostnað

Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að áætlaður rekstrarkostnaður tónlistarhússins verði um milljarður króna á ári. Ljóst er því að tekjur tónlistarhússins þurfa að vera myndarlegar eigi reksturinn ekki aðeins að standa undir sér, heldur einnig standa undir þeim miklu skuldum sem opinberir aðilar hafa tekið á sínar herðar vegna hans.

Rétt er líka að reyna að slá á hver eðlileg ávöxtunarkrafa ætti að vera á slíkum framkvæmdum. Ef til vill er nóg fyrir stjórnvöld að ná inn stofnkostnaði, en ef engin arðsemi er af fjárfestingunni hefði féð getað verið betur nýtt annars staðar.

Hér verður því reynt að meta hver fjármagnskostnaður við byggingu tónlistarhússins verður, hver sé eðlileg ávöxtunarkrafa og í ljósi þessara þátta hverjar tekjur hússins þurfa að vera á ári til að standa undir þessum þáttum til viðbótar við rekstrarkostnaðinn.

Ekki er vitað hver kjörin eru á lánum sem tekin hafa verið fyrir byggingu hússins, en hér verður gert ráð fyrir tveggja prósenta álagi ofan á þau kjör sem ríkinu bjóðast á verðtryggðum skuldabréfum. Þýðir það að nafnvextir eru um 5,5 prósent. Ef reiknað er með 2,5 prósenta verðbólgu, sem er verðbólgumarkmið Seðlabankans, er vaxtakostnaður á ári af 25,5 milljörðum króna rúmir tveir milljarðar á ári.

Þýðir þetta að við bestu hugsanlegu aðstæður, þar sem ekki bætist króna við áætlaðan kostnað og verðbólga er í lágmarki, er fjármagns- og rekstrarkostnaður hússins um þrír milljarðar króna á núvirði. Eru þá ekki teknar með í reikninginn afborganir á höfuðstól lánanna.

Verra dæmi

Fari byggingarkostnaður upp í þrjátíu milljarða króna og verðbólga verði um 4,7 prósent – sem er meðalverðbólga á Íslandi undanfarin tuttugu ár, hækkar fjármagnskostnaður um einn milljarð króna á ári, sem þýðir að húsið þarf að hala inn um fjóra milljarða á ári á núvirði til að standa undir kostnaði. Þessi tala hækkar svo eðlilega ef kostnaður fer yfir þrjátíu milljarða. Til samanburðar myndi vaxtakostnaður af fjörutíu milljarða tónlistarhúsi í 4,7 prósenta verðbólgu verða um 4,1 milljarður á ári.

Reynt var að slá á eðlilega ávöxtunarkröfu miðað við fjárfestingu á almennum markaði í skemmtana-, fasteigna- og tómstundageirum erlendis. Lauslega áætlað ætti ávöxtunarkrafan samkvæmt þessu að vera rétt rúm tíu prósent eftir skatt. Einkaaðili, sem ætlaði að fá eðlilega ávöxtun á fé sínu við byggingu sem þessa þyrfti með öðrum orðum að fá um einn tíunda af fjárfestingarkostnaðinum til baka á ári hverju. Gengi það ekki upp hefði hann betur varið fénu í eitthvað annað.

Miðað við þessa forsendu, sem og áðurnefndan milljarð í rekstrarkostnað á ári, þyrftu tekjur af byggingu, sem kostar 27,5 milljarða að byggja með öðrum orðum að vera um 3,75 milljarðar eftir skatt. Hafa ber þó í huga að ef slík bygging væri fjármögnuð með lánum, eins og tónlistarhúsið er gert, næðist ef til vill einhver skattaspörun, sem myndi draga úr skattgreiðslum á meðan greitt er af lánum.

Með öðrum orðum þyrfti hagnaður tónlistarhússins eftir skatt að vera um þrír milljarðar til þess eins að standa undir rekstrar- og fjármögnunarkostnaði við bestu hugsanlegar aðstæður og enn meiri ef ætlast er til að á fjárfestingunni sé einhver ávöxtun. Dæmið versnar svo enn ef aðstæður versna eða ef kostnaður eykst, eins og áður segir.

Í samkeppni við kirkjur

Hverjar eru hins vegar líkurnar á því að tónlistar- og ráðstefnuhús nái að hala inn slíkar gríðarlegar fjárhæðir? Vissulega er í samningi við ríkið gert ráð fyrir því að frá því komi um 800 milljóna króna framlag á ári og þá mun Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja í húsið. Af henni verða einhverjar tekjur.

Ríkið mun með öðrum orðum standa undir stórum hluta tekna hússins, sem nota á til að greiða niður kostnað ríkis og borgar við byggingu hússins. Sumir myndu nota myndlíkinguna að færa peninga úr vinstri buxnavasanum í þann hægri við slíkar aðstæður.

En hvað með aðra tónlistarviðburði? Blessunarlega hefur tónlistarflóran íslenska líklega aldrei verið fjölbreyttari og vart verður þverfótað fyrir hæfileikaríku tónlistarfólki og hljómsveitum af ýmsu tagi.

Flestir tónleikar, hvort sem um er að ræða klassíska tónlist eða dægurtónlist, eru hins vegar tiltölulega smáir þar sem gestir eru nokkrir tugir eða á bilinu 1-200. Vissulega er hægt að halda slíka tónleika í risastóru tónlistarhúsinu, en húsið þarf að keppa við fjölda annarra tónleikastaða um verð. Margir skemmtistaðir laða til sín gesti með því að halda tónleika, sem ekki er selt inn á. Tónlistarmenn geta fengið inni í kirkjum, sem margar hafa afburðagóðan hljómburð, fyrir lítið fé. Ætli tónlistarhúsið að laða til sín slíka atburði með því að bjóða lægra verð er ekki hægt að sjá að mikill hagnaður verði af tónleikahaldinu.

Í Morgunblaðinu þann 2. október 2005 sagði Pétur Jónasson gítarleikari að þrátt fyrir tilkomu glæsilegs tónlistarhúss virtist allt stefna í að allt að 90 prósent af öllum tónleikum höfuðborgarsvæðisins yrðu áfram haldin í kirkjum, myndlistarsölum, anddyrum stofnana og öðrum smærri stöðum. Tónlistarhúsið Ýmir var selt fimm árum eftir byggingu þess vegna þess að reksturinn gekk ekki sem skyldi. Er einhver ástæða til að ætla að mun dýrari og umfangsmeiri byggingu vegni betur í að laða að smærri viðburði?

Nauðsynlegar tekjur

3

vaxta- og rekstrarkostnaður vegna tónlistarhússins verður a.m.k. um þrír milljarðar

3.200

fjöldi sæta í sölum Hörpu

940.000

tekjur hvers sætis í húsinu þurfa að vera nær milljón á ári til að standa undir kostnaði

RÁÐSTEFNUHALD Í HÖRPU

Ráðstefnum ætlað að koma til bjargar

En húsinu er einnig ætlað að þjónusta ráðstefnur af ýmsu tagi og hafa stórar ráðstefnur þegar verið bókaðar í húsið. Tvöþúsund tannréttingamenn koma hingað árið 2013 og vegagerðarmenn munu halda 1.300 manna ráðstefnu árið 2012. Árið 2009 komu til landsins 20.000 útlendingar vegna ráðstefnuhalda og ef björtustu spár rætast mun þessum gestum fjölga eftir að ráðstefnuhúsið er tekið í notkun.

Erfitt er hins vegar að slá á hverjar tekjur hússins verða af slíkum ráðstefnum. Í Morgunblaðinu þann 13. mars síðastliðinn er haft eftir Pétri J. Eiríkssyni að tíu 1.000 manna ráðstefnur muni skila ríkinu um 260 milljónum króna í virðisaukaskatti af ráðstefnugjöldum og hótelkostnaði. Miðað við 25 prósent virðisaukaskatt er því þarna gert ráð fyrir því að það kosti þessa tíu þúsund gesti rúman milljarð króna að sækja ráðstefnu og gista á hóteli. Ef helmingurinn af þessari fjárhæð fer til ráðstefnuhússins þýðir það að tekjur af tíu þúsund ráðstefnugestum eru um fimm hundruð milljónir fyrir skatt. Til að standa undir þremur milljörðum króna þyrfti með öðrum orðum sextíu þúsund ráðstefnugesti í húsið, eða þrefalt fleiri en komu til landsins í þessum tilgangi í fyrra. Taka ber þó fram að mikil óvissa er um þessar tölur, en þær sýna þó að afar hæpið er að nógu margir gestir komi til að húsið standi undir fjármögnunar- og rekstrarkostnaði.

Ef þeir eldfjallafræðingar hafa rétt fyrir sér um að eldfjallavirkni á Íslandi verði meiri næstu áratugi mun það einnig setja strik í reikninginn, þar sem færri munu vilja bóka ráðstefnur á landinu þegar óvissa er um flug.