Victor Hans Halldórsson bifreiðastjóri fæddist í Reykjavík 26. mars 1923. Hann lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 1. maí 2010.

Útför Victors Hans fór fram frá Fossvogskirkju 10. maí 2010.

Nú er hann Victor Hans, tengdafaðir minn, látinn eftir stutt en erfið veikindi. Með þessum orðum langar mig að þakka honum samveruna síðastliðin 33 ár. Betri tengdaföður og afa fyrir börnin mín er vart hægt að hugsa sér. Hann var gæddur mikilli frásagnargleði og sögurnar frá uppvexti hans voru lærdómsríkar fyrir okkur öll sem ólumst upp við nútímaþægindi. Engum manni hef ég kynnst sem þekkti landið okkar betur en hann, fjöllin, dalina, árnar og óbyggðirnar. Hann vissi nöfn allra þessara kennileita, sama hvar var á landinu. Hann var sjómaður á sínum yngri árum, en síðar gerðist hann bifreiðarstjóri. Hann var einna lengst rútubílstjóri hjá Landleiðum og Vestfjarðaleið, þar sem hann naut sín best í lengri ferðum út á land eða upp í óbyggðir. Minnisstætt er mér þegar Jóhanna var að útbúa skrínukost í þokkalega stóran blikkkassa sem innihélt allt það nesti sem Victor þurfti. Hann var kannski í viku ferð uppi á hálendi og þótti honum sviðin alltaf standa upp úr, því þá gat hann notið þess að tálga af þeim með vasahnífnum sínum. Á Stokkseyri eiga þau sumarhús sem þau notuðu mikið. Þau nánast fluttu úr bænum til Stokkseyrar á vorin og langt fram á haust. Þar ræktuðu þau garðinn, máluðu og snyrtu húsið, gestkvæmt var þar, enda alltaf gott að koma til Jóhönnu og Victors.

Elsku Victor minn, takk fyrir samveruna, blessuð sé minning þín.

Þinn tengdasonur,

Ævar Valgeirsson.

Elsku besti afi okkar er fallinn frá og hans verður sárt saknað af okkur bræðrum.

Okkur eru ofarlega í huga allar stundirnar sem við áttum saman fyrir austan fjall. Á Stokkseyri, þar sem sumarhúsið ykkar ömmu er, var alltaf nóg um að vera. Við tókum fullan þátt í því að endurbyggja bústaðinn þó ungir værum. Sá staður var í hugum okkar einn stór ævintýraheimur á æskuárunum. Við hjálpuðum þér að höggva við í eldinn, veiddum silung í soðið, og þess á milli skelltum við okkur á kassabílinn. Þetta var mikil upplifun fyrir unga stráka eins og okkur, að komast uppí sveit með afa í kyrrðina og frelsið. Þar fengum við að vera úti langt fram á kvöld. Einnig er okkur minnisstætt þegar fjölskyldan fór öll til Þýskalands og Kanaríeyja. Á Kanarí sýndir þú okkur hvernig neftóbakið gæti komið sér vel í stríðinu við maurana. Varnarveggir voru settir upp við inngönguleiðir í húsið. Þetta endaði með því að afi varð neftóbakslaus á þriðja degi og hætti notkun þess upp frá því. Afi naut þess vel að borða góðan íslenskan mat og var hann mjög áhugasamur í seinni tíð um afrekstur veiðiferðanna hjá okkur bræðrum. Gaman var að bjóða honum í mat og fylgjast með honum nota vasahnífinn sinn við að hreinsa allt af beinunum. Þá naut hann sín vel. Allar góðu minningarnar og sögurnar sem þú sagðir okkur munum við geyma í hjörtum okkar um ókomna tíð. Hvíldu í friði, elsku afi, við munum hittast aftur þegar okkar tími kemur.

Valgeir og Victor Leifur.

Við systurnar höfum átt margar góðar stundir með afa Victori.

Afi naut þess að ferðast og eigum við margar góðar minningar úr ferðalögum með honum. Einna eftirminnilegust er ferð okkar á Vestfirði þar sem afi var mjög kunnugur. Hann sagði okkur því ýmsar sögur af ferðum sínum á þessum slóðum og fræddi okkur um allt það sem fyrir augu bar.

Það var alltaf jafn gaman að koma í sumarhúsið til afa og ömmu á Stokkseyri. Afi naut þess að vera uppi í bústað og hugsa um lóðina og húsið, sérstaklega ef hann hafði fjölskylduna hjá sér. Þar hugsaði hann einnig vel um dúkkuhús okkar krakkanna og eyddum við miklum tíma þar að leika okkur. Afi kíkti svo reglulega í dúkkuhúsið til okkar með alls kyns gamalt dót sem við gátum leikið okkur með.

Afi var alltaf svo hlýr og góður og bæði börn og dýr hændust að honum enda var hann alltaf tilbúinn með fulla dós af Tópas handa krökkunum. Hann var líka með eitthvað fyrir dýrin og gaf til dæmis alltaf gæsunum, sem komu á lóðina fyrir aftan blokkina, brauð.

Elsku afi, við kveðjum þig með söknuði en vitum að þú munt fylgjast með okkur í gegnum lífið og gæta okkar allra.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa)

Þínar afastelpur,

Jóhanna og Guðbjörg Eva.

Við kveðjum þig með söknuði, kæri Victor afi.

Á kveðjustund kemur margt upp í huga okkar systkina. Við nutum þess að vera elstu barnabörn Victors og Jóhönnu. Þegar við vorum á barns- og unglingsaldri fengum við að fara í rútuferðir með afa okkar vítt og breitt um landið. Í þessum ferðum kynntumst við landi og starfi afa okkar á einstakan hátt og munum búa að þeirri reynslu alla ævi.

Victor afi vann við störf til sveita, Bretavinnu og sjómennsku í mörg ár. En frá því við komum í heiminn var afi okkar ætíð bílstjóri líkt og faðir hans hafði verið. Ýmist var hann leigubílstjóri eða rútubílstjóri hjá Vestfjarðaleið. Við munum hvað þér fannst erfitt að hætta að vinna sökum aldurs. Þú hafðir ætíð unnið mikið og voru það mikil viðbrigði að hætta rútuakstrinum.

Af miklum myndarskap hafið þið amma gert upp sumarbústaðinn ykkar á Stokkseyri. Þar leið þér alltaf svo vel og næg voru verkin sem þurfti að vinna þar. Í dag er hann sælureitur fyrir alla fjölskylduna.

Þú lýstir því oft fyrir okkur hvernig þið byggðuð blokkina í Fellsmúlanum. Þar bjugguð þið í einstöku stigahúsi, sem þið nokkrir leigubílstjórar hjá Hreyfli höfðuð byggt upp í sameiningu. Við minnumst þess að Sala frænka okkar bjó á jarðhæðinni og naut hún nærveru við fjölskylduna enda hafði hún reynst afa vel þegar hann var barn.

Elsku afi, við þökkum fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og við munum ætíð geyma minninguna um góðan afa í hjörtum okkar.

Endar nú dagur, en nótt er nær,

náð þinni lof ég segi,

að þú hefur mér, Herra kær,

hjálp veitt á þessum degi.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Þín barnabörn,

Victor Þór og Áslaug.

Áfram rennur tímans elfur og vinir kveðja, þetta er gangur lífsins. Victor mágur okkar lést á Landakotsspítala á degi verkalýðsins 1. maí síðastliðinn 87 ára að aldri.

Lífsbaráttan hófst snemma hjá Victori eins og hjá mörgum ungum mönnum á þessum árum. Ungur kom hann til Vestmannaeyja og réð sig sem háseta á m/b Atlandis Ve 222. Skipstjóri var Sigmundur Karlsson. Fljótlega eftir komu hans til Eyja kynntist hann systur okkar, Jóhönnu, er síðar varð kona hans. Victor var síðar með þekktum aflamönnum, Willum Andersen á m/b Skógafossi, Guðmundi Vigfússyni á m/b Voninni, Steingrími Björnssyni á m/b Jökli og síðast með frænda okkar, Guðjóni Jónssyni á m/b Skuld Ve.

Eftir að sjómennsku lauk fluttust þau til Reykjavíkur og hóf Victor störf sem leigubílstjóri hjá Bifreiðastöð Steindórs þar sem hann starfaði stutt, festi kaup á fólksbifreið og gerðist meðlimur í Bifreiðastöðinni Hreyfli, þar starfaði hann í mörg ár. Síðar gerðist hann rútubifreiðarstjóri hjá Vestfjarðarleið og starfaði þar þar til hann var kominn á aldur. Í öllum störfum var hann lofaður fyrir góða þjónustu og snyrtimennsku.

Það var mikil guðs gjöf þegar Victor varð meðlimur í fjölskyldu okkar. Einstakur fjölskyldufaðir, farsælt hjónaband og mikið barnalán en þau urðu fyrir áföllum er þau misstu 2 af börnum sínum á barnsaldri. Hjónaband Victors og Jóhönnu hefur verið einstakt og voru þau alltaf tilbúin að veita ættingjum aðstoð þegar erfiðleikar steðjuðu að og sjálfsögð gisting.

Síðustu mánuðirnir voru Victori mjög erfiðir. Í veikindum sínum naut hann frábærrar umhyggju konu sinnar og barna og að síðustu á Landakotsspítala. Að leiðarlokum vottum við Jóhönnu, börnum þeirra og fjölskyldu einlæga samúð. Blessuð sé minning Victors Halldórssonar.

F.h. bræðranna frá Reykjum

og fjölskyldna þeirra,

Magnús Guðjónsson.