Eyðimörk Eðjan fyllti farveg Svaðbælisár og flaut yfir varnargarðana á köflum. Aurinn er gjörsamlega lífvana.
Eyðimörk Eðjan fyllti farveg Svaðbælisár og flaut yfir varnargarðana á köflum. Aurinn er gjörsamlega lífvana. — Ljósmynd/Ólafur Eggertsson
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Eðjuflóð, líkast fljótandi pússningarlögun, kom niður Svaðbælisá ofan við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum um klukkan níu í gærmorgun. Flóðið tók að sjatna upp úr hádeginu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Eðjuflóð, líkast fljótandi pússningarlögun, kom niður Svaðbælisá ofan við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum um klukkan níu í gærmorgun. Flóðið tók að sjatna upp úr hádeginu.

„Farvegurinn var orðinn hálffullur af fyrra flóðinu. Svo kom þetta og þá flaut yfir varnargarðana á um 150 metra svæði og gutlaði yfir á nýjum stöðum,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri. Drullan fyllti farveg árinnar svo hann varð sléttfullur alveg upp á barma á varnargörðunum. Farvegurinn hefur breitt svo úr sér að hann er orðinn margir ferkílómetrar að stærð að mati Ólafs. Eðjan á eftir að fjúka og skolast til.

„Þetta er algjör eyðimörk – líflaus eins og á tunglinu,“ sagði Ólafur. „Svo eru fjöllin kolbikasvört. Þar sést ekki í strá. Það er helst að lúpínan rífi sig upp úr drullunni.“

Í gær komu vinnuvélar frá Vegagerðinni til að hækka varnargarðana til bráðabirgða þar sem flaut yfir í gærmorgun. Búið er að teikna nýja garða og á að fara í gerð þeirra þegar eftir hvítasunnu.

Gilin og brekkurnar ofan við Þorvaldseyri eru full af ösku. Ólafur segir að þegar rigni í gjóskuna og hún nái vissri vatnsmettun fari þetta allt af stað.

„Þetta kemur mér ekki á óvart, þótt ég hafi aldrei séð svona fyrr. Maður er búinn að sjá þessa öskudrullu í kringum sig og hvernig þetta verður í bleytu. Þetta var það sem maður átti von á,“ sagði Ólafur.

Ræktunarland slapp við aurflóðið í gær. Ólafur sagði að búið hafi verið að laga til bráðabirgða varnargarða ofan og neðan við brúna yfir Svaðbælisá og komu þeir í veg fyrir skemmdir á ræktunarlandi.

Vatnsósa gjóska af jöklinum

Ekkert skyggni var til Eyjafjallajökuls í gær en töluverð úrkoma hafði verið, að minnsta kosti til fjalla. TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar flaug yfir svæðið í gær og tók myndir með SAR-radar. Með honum sjást útlínur og áferð landsins þótt ský liggi yfir. Myndirnar sýndu glöggt upptök aurflóðsins.

Svo virðist sem gjóska, sem legið hefur á jöklinum neðan 1.200-1.300 m hæðar, hafi flotið fram og hreinsast af á 4-5 km 2 svæði. Við úrkomuna í fyrrinótt hefur gjóskan orðið vatnsósa, fengið eiginleika vökva og flætt fram sem grautur af ösku og vatni, að mati Magnúsar Tuma Guðmundssonar prófessors.

Talið er að hliðstæðir atburðir geti orðið á vatnasviði Laugarár og Holtsár og ef til vill einnig austar á jöklinum.

Spurt&Svarað

Hvenær hófst eldgosið?

Eldgosið í toppgíg Eyjafjallajökuls hófst 14. apríl síðastliðinn og hefur því staðið í 37 daga.

Hvernig gos er þetta?

Eldgosið er sprengigos sem hófst undir jökli. Fyrstu fimm daga gossins komst bræðsluvatn úr jöklinum í tæri við kvikuna. Sprengivirkni er þó mikil í gígnum og hraunkleprar kastast hátt í loft upp.

Er öskufallið hættulegt?

Askan hefur slæm áhrif á dýr og fugla en getur haft góð áhrif á gróður sé öskulagið ekki of þykkt og komist niður í svörðinn. Óvenju mikið flúorinnihald er í gjóskunni og askan er mjög fínkornuð og ísúr. Flúor getur verið hættulegur fyrir búfé. Fínkornótt svifryk hefur ert öndunarfæri fólks og augu. Ekki þarf að fjölyrða um áhrif öskunnar á flugumferð sem hefur orðið fyrir mikilli röskun víða um heim.