Hressir Már Guðmundsson og Yves Mersch, bankastjóri BCL.
Hressir Már Guðmundsson og Yves Mersch, bankastjóri BCL. — Ljósmynd/BCL
Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Seðlabanki Íslands og Evrópski seðlabankinn í Lúxemborg (BCL) undirrituðu samkomulag í gær um að 120 milljarða króna skuldabréfasafn yrði selt til Seðlabanka Íslands fyrir 437 milljónir evra.

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Seðlabanki Íslands og Evrópski seðlabankinn í Lúxemborg (BCL) undirrituðu samkomulag í gær um að 120 milljarða króna skuldabréfasafn yrði selt til Seðlabanka Íslands fyrir 437 milljónir evra. Um er að ræða ríkisskuldabréf og íbúðabréf sem Landsbankinn lagði að veði í veðlánaviðskiptum við BCL í maí 2008 í gegnum félagið Avens B.V. BCL var stærsti einstaki krónueigandinn utan Íslands, og samkvæmt Seðlabankanum mun afnám gjaldeyrishafta nú reynast auðveldara. Eftir standa þó 220 milljarða króna innistæður, auk 52 milljarða af ríkisvíxlum og 58 milljarða í ríkisskuldabréfum á gjalddaga innan árs sem eru í eigu erlendra aðila.

Skuldir í erlendri mynt aukast

Erlend staða þjóðarbúsins batnar nokkuð við þessi viðskipti, eða um sem nemur 3,5% af vergri landsframleiðslu samkvæmt tilkynningu Seðlabankans. Hins vegar aukast skuldir í erlendri mynt um sem nemur 437 milljónum evra. Greiðsla Seðlabanka Íslands fyrir skuldabréfapakkann er í formi 15 ára skuldabréfs upp á 402 milljónir auk 35 milljóna evra reiðufjárgreiðslu. Skuldabréfið ber EURIBOR-vexti, sem voru í gær 0,7%, auk 2,75% vaxtaálags. Til viðbótar við evrugreiðsluna borgar Seðlabanki Íslands BCL sex milljarða króna, en ekki hafa fengist skýringar á því hverju það sætir að BCL skuli vilja fá hluta greiðslunnar í íslenskum krónum.

Skuldabréfin verða fyrst um sinn lögð inn í Eignaumsýslufélag Seðlabanka Íslands. Talsverðrar óvissu hefur gætt á innlenda skuldabréfamarkaðnum um hvernig eignasafninu verður ráðstafað. Bent hefur verið á að skynsamlegt væri að færa bréfin til Lánasýslu ríkisins, sem myndi koma bréfunum út á markaðinn í passlegum skömmtum. Útgáfuáætlun þyrfti þó að taka mið af því. Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Lánasýslunni í gær hafa engar breytingar verið gerðar á útgáfuáætlun að svo stöddu.