Sjóðir Þeir eiga mismikla peninga.
Sjóðir Þeir eiga mismikla peninga.
Egill Ólafsson egol@mbl.

Egill Ólafsson

egol@mbl.is

„Þetta er dálítið raunalegt hvað menn skila seint og illa,“ segir Lárus Ögmundsson, aðallögfræðingur Ríkisendurskoðunar, um þá niðurstöðu að tæplega þriðjungur sjálfseignarstofnana, sem lögum samkvæmt áttu að skila reikningum sínum fyrir árið 2008 til Ríkisendurskoðunar, hefur ekki gert það.

Samkvæmt lögum ber sjóðum og stofnunum sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá að senda ársreikninga sína til Ríkisendurskoðunar. Um er að ræða sjálfseignarstofnanir sem ekki stunda atvinnurekstur, einkum ýmsa styrktar- og minningarsjóði og góðgerðarstofnanir.

Í lok apríl sl. höfðu 486 aðilar af samtals 705 sem féllu undir lögin skilað ársreikningum fyrir árið 2008. Tæplega þriðjungur, eða 219, hafði ekki skilað.

Lárus segir að ýmsar ástæður geti verið fyrir því að menn skili ekki reikningum. Margir sjóðir séu með litla starfsemi og forsvarsmenn þeirra gleymi að skila reikningum. Ennfremur eru dæmi um að forsvarsmenn deyi og engir taki við.

Gömul saga og ný

Lárus segir að Ríkisendurskoðun þrýsti á um að reikningum sé skilað. Ef það sé ekki gert hafi stofnunin heimild til að vísa málum til sýslumanns og það hafi verið gert í nokkrum tilvikum. Lárus sagði að það væri gömul saga og ný að menn skiluðu reikningum seint og illa. „Þessar sjálfseignarstofnanir eru því marki brenndar að þær eru staðfestar af því opinbera. Það er sérstök löggjöf í landinu sem kveður á um að menn staðfesti sjóðina. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að koma þessu undir eitthvert opinbert eftirlit.“

Heildareignir sjálfseignarstofnana sem skiluðu reikningum fyrir árið 2008 námu samtals 41 milljarði króna í árslok. Skuldir þeirra námu samtals 15,1 milljarði og var eigið fé því samtals 25,9 milljarðar. Heildartekjur námu samtals 10,7 milljörðum en gjöld 11,7 milljörðum. Af þessum stofnunum höfðu 104 yfir 5 milljónir króna í tekjur á árinu.

FJÖLBREYTTUR LISTI

Skila ekki

Meðal sjóða sem ekki hafa skilað reikningum er Gjöf Jóns Sigurðssonar, en hann er vistaður í forsætisráðuneytinu. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar hefur sjóðurinn ekki skilað reikningum til stofnunarinnar síðan 1995. Bókasjóður forsetaembættisins að Bessastöðum hefur heldur ekki skilað reikningi síðan árið 1988.

Á listanum eru líka sjóðir á vegum sparisjóða, kirkna, skóla og safna. Menningarsjóður Glitnis hefur ekki skilað reikningum og Menningar- og styrktarsjóður SPRON ekki heldur.

Elstu sjóðirnir, Reynislegat, stofnaður árið 1662, og Thorkillisjóður, frá 1759, hafa ekki skilað reikningum.