Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
„Mér gekk náttúrulega mjög vel í vetur þannig að maður vonaðist eftir því að verða valinn sem fyrst. Það er fínt að vera kominn í hópinn núna,“ sagði knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, annar nýliðanna í landsliðshópi Ólafs Jóhannssonar fyrir vináttulandsleikinn gegn Andorra 29. maí.
Gylfi hefur farið á kostum með Reading í ensku 1. deildinni í vetur og var orðinn langeygður eftir tækifæri með A-landsliðinu. „Maður hefði auðvitað viljað vera með í hópnum í síðustu leikjum en það er gott að vera kominn inn núna,“ sagði Gylfi.
Sumir hafa reyndar leitt að því líkur að Ólafur þekki ekki til hæfileika Gylfa og hafi því ekki valið hann fyrr, en það er fjarri sannleikanum. Gylfi hefur meira að segja hýst landsliðsþjálfarann!
„Hann er FH-ingur líkt og ég og þekkir mig vel svo ég held að hann hafi bara verið að bíða eftir rétta tækifærinu. Hann þekkir til pabba og kom hingað til að horfa á leik með Reading og QPR og þá fékk hann að gista eina nótt. Ég held að hann sé búinn að fylgjast mjög vel með mér og hafi bara verið að bíða eftir rétta tímanum til að velja mig í hópinn,“ sagði Gylfi sem líst vel á hópinn sem varð fyrir valinu, en þar eru margir samherjar hans úr U21-landsliðinu.
„Mér líst nokkuð vel á þennan hóp. Við erum margir þarna sem höfum spilað saman í gegnum yngri landsliðin, eins og Aron, Jóhann Berg, Kolbeinn og fleiri,“ sagði Gylfi sem vonast til að halda uppteknum hætti frá því í vetur en hann hefur skorað grimmt hjá Reading. „Það er auðvitað markmiðið að skora fljótt fyrsta landsliðsmarkið. Ég hef nánast bara verið í minni stöðu á miðjunni, eða sem fremsti miðjumaður í 4-3-3 leikkerfi og þá er ætlast til að maður skori,“ sagði Gylfi sem gæti þurft að fylla skarð Eiðs Smára Guðjohnsen í nákvæmlega þessari stöðu 29. maí, og hann viðurkennir að það sé ekki létt. „Nei, enda hefur maður verið að fylgjast með honum síðustu ár. Hann er búinn að vera ágætur,“ sagði Gylfi Þór í léttum tón.
Landsliðshópurinn gegn Andorra
MARKVERÐIR:Árni Gautur Arason, Odd 70
Gunnleifur Gunnleifsson, FH 16
VARNARMENN:
Indriði Sigurðsson, Viking S. 52
Kristján Örn Sigurðss, Hönefoss 44
Sölvi Geir Ottesen, SönderjyskE 10
Arnór S. Aðalsteinsson, Breiðab. 4
Jón Guðni Fjóluson, Fram 2
Skúli Jón Friðgeirsson, KR 2
MIÐJUMENN:
Aron Einar Gunnarsson, Coventry 17
Ólafur Ingi Skúlason, SönderjyskE 11
Rúrik Gíslason, OB 5
Jóhann Berg Guðmundsson, AZ 5
Eggert Gunnþór Jónsson, Hearts 4
Steinþór F. Þorsteinsson, Stjörn. 3
Birkir Bjarnason, Viking S. 0
Gylfi Þór Sigurðsson, Reading 0
SÓKNARMENN:
Heiðar Helguson, Watford 47
Veigar Páll Gunnarsson, Stabæk 29
Arnór Smárason, Heerenveen 7
Kolbeinn Sigþórsson, AZ 2