[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Önundur Páll Ragnarsson onundur@mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að hann muni ekki hækka skatta á næsta kjörtímabili.

Fréttaskýring

Önundur Páll Ragnarsson

onundur@mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að hann muni ekki hækka skatta á næsta kjörtímabili. Einnig segir um áherslumál flokksins á vef hans að gjaldskrám verði áfram haldið með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu.

Aðspurð hvort von sé á hækkunum á gjaldskrám, þrátt fyrir þetta orðalag, segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, að gjaldskrár muni ekki hækka neitt á þessu ári. „Gjaldskrár hafa ekki hækkað í tvö ár og þær munu ekki hækka á þessu ári. Við viljum halda því,“ segir Hanna Birna.

Þegar rétta tekur úr stöðunni á Íslandi segir hún hins vegar að ætla megi að gjaldskrár þurfi aftur að fara að taka mið af verðlagsþróun, eins og verið hefur í áraraðir.

„Við erum ekki með það á stefnuskránni,“ segir Dagur B. Eggertsson, spurður hvort Samfylkingin ætli að hækka skatta í Reykjavík. Hann lofar samt engu en vill komast hjá þessu með átaki í atvinnumálum.

„Hvert prósent í atvinnustigi kostar Reykjavíkurborg einn milljarð króna á ári. Mér finnst mjög ótrúverðugt þegar einstök framboð eru að lofa hinu og þessu, sem eigi að halda næstu fjögur árin, án þess að setja fram burðugt prógramm í atvinnumálum,“ segir Dagur.

Spurður hvoru hann hallist frekar að, að hækka útsvarið eða einstök gjöld, segir hann að það þurfi að meta í hverju máli fyrir sig. Skoða þurfi hvernig byrðunum verði dreift á sem sanngjarnastan hátt, án þess að það komi verst niður á þeim sem eru í mestri þörf.

„Ég held að það sé alveg ljóst að borgin þarf á meiri tekjum að halda,“ segir Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri-grænna. „Við teljum farsælla að það verði farið í útsvarshækkanir frekar en að við hækkum gjöld fyrir ákveðna þjónustu. Það bitnar bara á afmörkuðum hópum og þeim hópum sem mest þurfa á þjónustunni að halda.“

Hún segir að ef borgin fullnýti útsvarsheimild sína færi það borginni 700 milljón króna tekjur á ári. Ef samsvarandi upphæð eigi að ná með hærri þjónustugjöldum þurfi að hækka þau um 7,46% að jafnaði. Það væri ósanngjarnt gagnvart foreldrum barna í leik- og grunnskólum.

„Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að við fullnýtum útsvarið á kjörtímabilinu,“ segir Sóley. Það sé sanngjarnasta leiðin.

Framsóknarflokkurinn, með Einar Skúlason í fararbroddi, ætlar ekki að hækka skatta eða gjaldskrár umfram verðlagsþróun á kjörtímabilinu. Haldið skuli áfram með aðhaldsaðgerðir í rekstrinum og forgangsröðun í þágu barna og velferðar. „Fólk í borginni á mjög erfitt með að láta enda ná saman. Reykjavíkurborg þarf því að reyna eftir megni að hækka ekki álögur,“ sagði Einar í vikunni.

„Við ætlum ekki að hækka útsvarið og gjöldin ætlum við ekki að hækka. Gjaldskrá Orkuveitunnar gæti samt þurft að hækka, vegna gríðarlegrar skuldsetningar þar á bæ,“ segir Haraldur Baldursson, sem skipar 2. sæti F-listans. Haraldur vill spara í rekstri borgarinnar, færa æðstu stjórnendur nær gólfinu en nú er og hafa færri lög stjórnenda, skera niður í aðkeyptum skýrslum og viðhorfskönnunum um 60% og styðja við atvinnusköpun.

STÓREIGNIR, ORKA OG ÓKLÁRUÐ HVERFI

Víða færi á skattabreytingum

„Við viljum aldeilis ekki hækka álögur á almenning, heldur forgangsraða í þágu hans,“ segir Ólafur F. Magnússon, oddviti H-listans. Hann vill skera niður óarðbærar stórframkvæmdir á vegum OR, hækka orkuverð til stóriðju og hækka skatta á stóreignafólk.

„Með breyttri forgangsröðun er hægt, þvert á móti, að lækka álögur á almenning, því við viljum lækka eða fella niður gjaldskrár fyrir börn, unglinga, aldraða og öryrkja,“ segir Ólafur.

Reykjavíkurframboðið leggur áherslu á að skattar og gjöld verði ekki hækkuð og í raun lækkuð á kjörtímabilinu. „Þar sem við ætlum að bakfæra aftur þann niðurskurð sem borgin hefur framkvæmt í grunnþjónustunni á síðustu um það bil 18 mánuðum. Það er nóg lagt á borgarbúa nú þegar, nú er komið að borginni að nýta eignir sínar til þess að verja borgarbúa í erfiðleikunum,“ segir Baldvin Jónsson, oddviti framboðsins.

Jón Gnarr, oddviti Besta flokksins, segist stefna að útsvarslækkun, en nefnir engar tölur í því samhengi. Hann hafi ekki kynnt sér hvaða svigrúm sé fyrir hendi.

„Við höfum það að stefnu að lækka fasteignagjöld, sérstaklega með tilliti til nýrra hverfa. Að fólk sé ekki að greiða fyrir þjónustu sem það fær ekki. Okkur finnst það ósanngjarnt,“ segir Jón.