Vonar hið besta Framkvæmdastjóri Icelandair er bjartsýnn á markaðsátakið.
Vonar hið besta Framkvæmdastjóri Icelandair er bjartsýnn á markaðsátakið. — Morgunblaðið/G.Rúnar
Hlynur Orri Stefánsson hlynurorri@mbl.is „Það sem við höfum mestar áhyggjur af er að bókanir fyrir sumarið hafa nánast stöðvast,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Hlynur Orri Stefánsson

hlynurorri@mbl.is

„Það sem við höfum mestar áhyggjur af er að bókanir fyrir sumarið hafa nánast stöðvast,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur sett verulegt strik í reikning flugfélaganna. Undanfarnar vikur hafa nýjar bókanir hjá Icelandair einungis verið um 25% af því sem var á sama tíma síðustu ár.

Á morgunverðarfundi Icelandair í gær sagði Ulrich Shulte-Strathaus, forstjóri Evrópusambands flugfélaga, nýjum bókunum hjá evrópskum flugfélögum einnig hafa fækkað um fjórðung frá því gosið hófst.

Birkir segir flugfélagið hafa verið ágætlega undir skellinn búið, enda var bókunarstaðan áður en eldgosið hófst jafnvel betri en í fyrra, þegar metfjöldi ferðamanna heimsótti landið. „En ef truflanir halda áfram í sumar getur skaðinn orðið mikill.“

Kostnaður Icelandair þá daga sem flug liggur niðri er 50 milljónir króna á dag. Áætlar Birkir að kostnaður flugfélagsins vegna gossins hlaupi á 700 milljónum til milljarðs.

Upplýsingafulltrúi Iceland Express sagði í samtali við Morgunblaðið forsvarsmenn fyrirtækisins ekki vilja svara því hver kostnaður flugfélagsins vegna gossins væri orðinn, né hvaða áhrif kostnaðurinn hefði á félagið.

Met var slegið í fjölda ferðamanna í fyrra og var búist við 20% fjölgun í ár. Eftir að gosið hófst var því hins vegar spáð að ferðamönnum fækkaði um allt að 20% milli ára. Birkir bendir á að ekki sé einungis um hagsmunamál flugfélaganna að ræða, enda geti þetta þýtt að gjaldeyristekjur þjóðarbúsins verði 50 milljörðum króna minni en spáð hafði verið.

Þó segist hann binda vonir við að með markaðsátaki stjórnvalda, Reykjavíkurborgar og fyrirtækja í ferðaiðnaði verði hægt að koma í veg fyrir fækkun ferðamanna á milli ára. Til stóð að kynna átakið í gær, en því var frestað fram á föstudag.

Hörður Guðmundsson, forstjóri Flugfélagsins Ernis, segir útlitið ekki heldur gott fyrir félög í innanlandsflugi og hefur áhyggjur af sumrinu ef ástandið batnar ekki. Þegar ekki er flogið verði félagið fyrir tveggja milljóna króna tekjumissi á dag. Við það bætist 700 þúsund króna launakostnaður á dag.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir tekjumissinn vera á bilinu sjö til átta milljónir króna á dag þá daga sem ekkert er flogið. Við það bætist tap sem félögin verða fyrir þá daga sem sumir vellir eru opnir en ekki aðrir.

» Evrópusambandið hefur áætlað að tap evrópskra flugfélaga vegna gossins nemi 2,5 milljörðum evra, eða um 400 milljörðum ísl. kr.
» Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) sögðu um miðjan apríl að þau 220 flugfélög sem tilheyra sambandinu töpuðu þá um 200 milljónum dala á dag, eða um 26 milljörðum ísl. kr.
» Gjaldeyristekjur af ferðamönnum á Íslandi voru á síðasta ár 155 milljarðar og hafa aldrei verið meiri.
» Miðað við spár um aukinn fjölda ferðamanna, áður en eldgosið hófst, var búist við að gjaldeyristekjur af ferðamönnum gætu orðið 180 milljarðar á þessu ári.
» Eins og bókunarstaðan og staðan er núna er hins vegar búist við að ferðamönnum fækki um 10 til 20% frá því í fyrra, og gætu gjaldeyristekjurnar þá orðið nær 130 milljörðum.