[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Usain Bolt, sprettharðasti maður veraldar, sigraði í 100 metra hlaupi á móti sem haldið var í Daegu í S-Kóreu í gær en þar fer heimsmeistaramótið fram á næsta ári.
Usain Bolt, sprettharðasti maður veraldar, sigraði í 100 metra hlaupi á móti sem haldið var í Daegu í S-Kóreu í gær en þar fer heimsmeistaramótið fram á næsta ári. Bolt, sem vann til þrennra gullverðlauna bæði á Ólympíuleikunum og á heimsmeistaramótinu, hljóp skeiðið á 9,86 sekúndum en heimsmet hans í greininni er 9,58 sek. Jamaíkumaðurinn Michael Frater varð annar á 10,15 sek. og Bandaríkjamaðurinn Mike Rodgers þriðji á 10,18 sek.

Bandaríkjamaðurinn Ryan Baily fagnaði sigri í 200 metra hlaupinu en hann kom í mark á 20,58 sek. og í 400 metra hlaupinu varð Angelo Taylor frá Bandaríkjunum hlutskarpastur en sigurtími hans var 45,21 sek.

Carmelita Jeter frá Bandaríkjunum kom fyrst í mark í 100 metra hlaupi kvenna á 11,0 sekúndum en í öðru sæti var gullverðlaunahafinn frá Ólympíuleikunum í Peking, Veronica Campbell-Brown . Í 200 metra hlaupinu sigraði Bianca Knight frá Bandaríkjunum.

Birkir Bjarnason, leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Viking , er svo sannarlega í markastuði þessa dagana en miðjumaðurinn efnilegi skoraði eitt marka Vikings þegar liðið sigraði Randaberg , 4:2, í 64-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær. Birkir hefur þar með skorað sex mörk á tímabilinu, fjögur í deildinni og tvö í bikarnum.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði sitt þriðja mark á tímabilinu fyrir Stabæk þegar liðið hafði betur gegn grönnum sínum í Bærum , 2:0, á útivelli í norsku bikarkeppninni.

Íslendingaliðið Brann mátti þola tap gegn þriðjadeildarliðinu Fyllingen í bikarnum og er farið að hitna undir þjálfaranum Steinari Nilsen en Brann er í 13. sæti í deildinni eftir tólf umferðir.

Ítalska knattspyrnuliðið Juventus réð í gær Luigi Del Neri sem nýjan þjálfara liðsins og tekur hann við af Alberto Zaccheroni sem var ráðinn tímabundið eftir að Ciro Ferrari var rekinn í janúar. Del Neri kemur frá Sampdoria en þar áður var hann við stjórnvölinn hjá Porto .