Margrét Jósefína Ponzi fæddist í Reykjavík 2. maí 1961. Hún lést á sjúkrahúsi í Bologna á Ítalíu 18. mars síðastliðinn.

Minningarathöfn um Margréti var haldin í Mosfellskirkju, Mosfellsdal, 2. maí 2010.

Fallin er frá, langt fyrir aldur fram, Margrét Jósefína Ponzi.

Ég minnist Margrétar fyrst þegar ég slysaðist með kunningja mínum í afmæli til Margrétar, þar sem hún var liðlega tvítug. Þá bjó hún í næsta húsi við Háteigskirkju. Í afmælinu dró hrokkinhærður maður fram „Fjárlögin“ og byrjaði að leika á flygilinn. Afmælisgestir söfnuðust margir að flyglinum og sungu með. Þessi söngur endaði með því að organistinn, dr. Orthulf Prünner, „sjanghæjaði“ mig í Háteigskirkjukórinn. Þar var einn kórfélaganna auðvitað hún Margrét. Þannig varð því að við hittumst aldrei sjaldnar en tvisvar í viku eftir þetta, oftast þrisvar. Margrét var auðvitað mjög góður söngvari og var vissulega langsamlega fremst meðal jafningja í kórnum.

Það var gaman að kynnast Margréti. Hún hafði yndislega nærveru. Hún virtist alltaf geisla af gleði, sem sást einnig í tindrandi augnaráði hennar. Ávallt stutt í brosið og gleðina. Það var ávallt gaman á kóræfingum með Margréti, ekki síst vegna hins ótrúlega þolinmóða og ljúfa kórstjóra, sem er sennilega einhver besti organisti sem hefur starfað á Íslandi.

Þá var Margrét framtakssöm umfram marga aðra, en hún opnaði heilsubar með vinkonu sinni í litlu garðhúsi á Vesturgötu 7. Þar var hægt að fá ferskan nýpressaðan appelsínusafa og þess háttar. Þar fékk hún mig til að halda opnunarræðu, en það var mér ljúft og skylt að mæra slíka framtakssemi. Það kom mér því ekki á óvart þegar ég frétti að hún starfrækti söngskóla á Ítalíu.

Eftir einhvern tíma fór hún í heimsflakk og var því sjaldnar á landinu. Þó hittumst við alltaf annað slagið þegar hún kom til landsins. Það var alltaf gaman að umgangast Margréti. Hún létti lundina með nærveru sinni og lífsgleði. Söngvari var hún góður eins og fyrr segir, en sönggenin átti hún auðvitað ekki langt að sækja, en móðir hennar er auðvitað landsþekkt fyrir góðan söng og ljúfmennsku, auk þess að þjálfa presta og prestsefni í söngtækninni.

Ég man hvað það kom mér alltaf á óvart hversu mikinn raddstyrk Margrét hafði, með svona nettan líkama. Í huga mínum voru „stórdívur“ í sópran ávallt barmmiklar og vel þéttar. Þess þurfti Margrét greinilega ekki með til að skara fram úr í söng og styrk, og tónviss var hún auðvitað. Margrét var myndarleg og falleg kona, hnarreist og hafði fallega framkomu og hæfði vel í hin ýmsu hlutverk óperuheimsins.

Nú er skarð fyrir skildi hjá fjölskyldu Margrétar. Margrét er sofnuð, en við örvæntum ekki því Drottinn segir um efsta dag í Guðspjalli Jóhannesar: „... þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust Hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins.“ Í trausti þessa fyrirheits Frelsarans getum við sem lifum hana vonast til að hitta hana á ný í himneskum heimkynnum í fyllingu tímans. Þangað til verðum við að minnast góðrar vinkonu og þakka allar góðu stundirnar, og þreyja þorrann með Guðs styrk. Ég sendi fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur og bið þeim Guðs blessunar og styrks. Megi Margrét Jósefína hvíla í friði.

Kópavogi, 29. apríl

Þorsteinn Halldórsson.