Sigfríður Theódórsdóttir Bjarnar kennari fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1920. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 9. maí sl.

Útför Sigfríðar fór fram frá Kópavogskirkju 19. maí 2010.

Kvöldið áður en elsku amma mín dó var hún sárlasin og átti erfitt með mál. Hún hafði þó þrek til að þakka af öllu hjarta fyrir að vera orðin hitalaus. Þegar ég kvaddi hana þetta sama kvöld og bað hana um að láta sér batna brosti hún út í annað og sagðist ætla að gera sitt besta. Hún gerði sitt besta.

Amma mín gerði alltaf sitt besta og þakklætið var aldrei langt undan.

Lífið hlífði ömmu ekki við áföllum. En það er ekki það sem verður á vegi okkar sem skiptir máli heldur hvernig við bregðumst við því. Amma mín stóð flestum framar í að snúa sorg í gleði og missi í þakklæti. Sjálfsvorkunn átti hún ekki til. Hún var óendanlega þakklát fyrir ástríka fósturforeldra eftir að hafa sem barn misst báða foreldra sína og eftir barnsmissi þakkaði hún fyrir tilhlökkunina, vonirnar og draumana.

Ekkert af áföllum ömmu varð alvöru hindranir heldur nýtti hún þau til lærdóms og þroska og dýpkaði þannig rýmið í hjartanu fyrir kærleika og þakklæti.

Amma hafði áhuga á lífinu. Hún var mikill listunnandi hvort heldur listin var mannanna verk eða náttúrunnar. Hún kunni að njóta þess smáa og átti auðvelt með taka eftir fegurð hversdagsins. Enga hef ég þá manneskju hitt sem hefur haft jafnmikinn og einlægan áhuga á öðru fólki. Hún hafði áhuga á uppruna fólks, námi, starfi og síðast en ekki síst hugsunum þess, vonum og þrám. Hún gaf sér tíma til að líta á hverja manneskju sem persónu, hversu stóru eða smáu hlutverki sem hún gegndi í lífi hennar.

Við sem stóðum henni næst nutum þessara eiginleika enn betur. Amma hafði áhuga á öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Ef hún var ekki viðræðuhæf um það í upphafi þá bara kynnti hún sér málið. Skarpgreind og fróðleiksfús sem hún var átti hún svo sem ekki í vandræðum með að setja sig inn í hlutina.

Amma var afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að mennta sig og var mikilvægi menntunar henni hugleikið alla tíð. Hún starfaði sem kennari og síðustu kennsluárin sem sérkennari. Hún hafði mikla samúð með börnum sem áttu erfitt með nám og þær voru ófáar sögurnar sem hún sagði mér af sætum sigrum skjólstæðinga sinna. Sérlega minnisstæður er mér glampinn í augum hennar þegar hún sagði mér söguna af drengnum sem hafði það að markmiði að geta lesið á pakkana sína ein jólin. Það tókst.

Já, amma var kennari af guðs náð og sjálf hef ég orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera nemandi hennar alla mína tíð. Amma var ekki bara þátttakandi í að kenna mér að lesa og skrifa heldur kenndi hún mér mikilvægi þess að njóta þess að geta lesið og skrifað. Hún kenndi mér ekki bara að maður ætti alltaf að segja „ég hlakka til“ heldur kenndi hún mér líka mikilvægi þess að hlakka til. Amma kenndi ekki bara með staðreyndum heldur með því að sá fræjum, vekja áhuga og ekki síst með því að vera fyrirmynd.

Ég kveð elsku ömmu mína og minn besta vin með miklum söknuði en þó full auðmýktar og þakklætis yfir að hafa fengið að vera svo náin konu sem hafði svo mikið að gefa.

Sigfríður Guðný

Theódórsdóttir.

Sigfríður Bjarnar, eða Gógó frænka eins og við kölluðum hana, dó sunnudaginn 9. maí sl. Hún er síðust systkinanna þriggja, sem voru kölluð Gógó, Lóló og Bóbó, sem fellur frá. Kornung missto hún foreldra sína.

Guðný systir Vilborgar móður þeirra og Einar Sveins tóku systkinin 3 að sér. Fyrir höfðu þau tekið að sér Inga Árdal.

Amma Guðný stóð sem klettur með börnunum sem hún hafði tekið að sér sem þau væru hennar eigin. Gott samband var á milli mömmu og Gógóar og var mjög mikill samgangur á milli heimilanna. Við systkinin kynntumst því Gógó og hennar fjölskyldu vel, Halldóri eiginmanni hennar og strákunum Tedda og Gulla.

Lokastígur 7 var lengi nokkurskonar samkomustaður fjölskyldunnar. Þar áttu heima til margra ára þeir sem voru næstir okkur í móðurfjölskyldunni. Alltaf var gott að koma til Gógóar frænku hvort sem um var að ræða á Lokastíginn eða á Hlíðarveginn.

Tók hún alltaf vel á móti okkur systkinunum þrátt fyrir að okkur fylgdi nokkur fyrirferð. Í okkar huga var Gógó fróð kona og vel að sér um alla hluti. Gógó var mjög ættrækin og trygglynd, sem dæmi um það hafði hún alltaf samband við okkur systkinin þegar við áttum afmæli.

Kæru frændur, okkar hugur er hjá ykkur á þessum tímamótum nú þegar þið hafið misst báða foreldra ykkar. Við vottum ykkur og fjölskyldu ykkar innilega samúð.

Vilborg Sigríður Árnadóttir, Kristín Árnadóttir, Björn

Theódór Árnason, Einar Sveinn Árnason, Árni Árnason,

Vilhjálmur Jens Árnason.

Á Póstinum í Pósthússtræti í Reykjavík var ys og þys sumarið 1940. Enn var sendibréfið sá miðill sem allir reiddu sig á. Á umbrotatímum – heimsstyrjöld hafin og þúsundir landsmanna í búferlaflutningum úr sveit í bæ – var frá mörgu að segja. Ekki hefur spillt fyrir að ungu lífsglöðu fólki finnst sinn staður í tilverunni alltaf vera miðpunktur heimsins. Í þessari hringiðu bæjarlífsins kynntumst við Gógó sem einnig var við störf á póstinum þetta sumar. Frá því er skemmst að segja að með okkur tókst vinátta sem haldist hefur fram á þennan dag.

Það er skrýtin tilhugsun að frá þessum sumardögum skuli vera liðin sjötíu ár. Í senn skammur tími og langur. Við vorum tvítugar og áttum lífið framundan. En um leið er þetta sem örskotsstund.

Gógó var mikil mannkostamanneskja. Dugnaður og áhugi á menningu og menntun var einkennandi í fari hennar. Í mínum huga var aðalsmerki hennar viðhorfið til manna og málefna. Væri einhverjum hallmælt í nálægð hennar mátti reiða sig á að hún fyndi eitthvað jákvætt viðkomandi til málsbóta. Það var því mannbætandi að vera nálægt henni. Allir fundu að hún var góð manneskja.

Það er mikill söknuður og eftirsjá að Gógó. Hún mun ávallt lifa í huga mér. Ég sendi fjölskyldu hennar mínar dýpstu samúðarkveðjur. Þeirra er missirinn mestur.

Margrét H.

Vilhjálmsdóttir.