Vinur Viggo Mortensen er heillaður af Íslandi og hélt sýningu hér árið 2008.
Vinur Viggo Mortensen er heillaður af Íslandi og hélt sýningu hér árið 2008. — Morgunblaðið/Einar Falur
Vefsíðan var formlega opnuð síðastliðinn fimmtudag, en hún er hluti af markaðsátaki ferðaþjónustunnar í framhaldi af eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Vefsíðan var formlega opnuð síðastliðinn fimmtudag, en hún er hluti af markaðsátaki ferðaþjónustunnar í framhaldi af eldgosinu í Eyjafjallajökli. Síðu þessari er sérstaklega ætlað að draga úr ótta útlendinga við eldgos og fælni af þeim sökum gagnvart Íslandi. Eins og nafnið gefur til kynna þá er þetta ákall:

Komdu og láttu Ísland blása þér í brjóst, eða fylla þig andagift.

Allt sem er inni á þessum vef er ætlað til að hvetja fólk til að koma og upplifa náttúrukraftana og allt það frábæra sem landið okkar hefur upp á að bjóða.

Hægt er að setja inn á síðuna myndbönd, þar sem fólk (statt á Íslandi) lýsir upplifun sinni. Fjölmargir hafa nú þegar nýtt sér þetta og kennir þar nokkurra grasa: Ástrali sem hefur komið til 35 landa, segir t.d frá því að heimsókn hans til Ísland taki öllu fram, Fanny frá Hong Kong stendur við Skógarfoss og lýsir því hvernig landið stóð meira en undir væntingum, hin bandaríska Ashley með barn sitt í fanginu við Gullfoss tjáir okkur að íslenska fólkið hafi algerlega heillað hana upp úr skónum osfr.

Þarna eru einnig lengri myndbönd sem unnin hafa verið sérstaklega fyrir vefinn, þar sem heimsþekktir einstaklingar dásama landið, t.d. Íslandsvinurinn og göngugarpurinn Viggo Mortensen sem segir frá því hvursu heillaður hann sé af víkingasögunum og íslenskri náttúru. Honum hefur ekki fundist einni sekúndu illa varið sem hann hefur ferðast hér um. Við fáum líka að fylgjast með danska kokkinum René Redzepi veiða fisk á Íslandi, bíta af honum uggann og grilla hann á staðnum og sannfæra okkur um ágæti eyjunnar í norðri.

Nú þegar innanlandsferðahugurinn grípur um sig er um að gera fyrir okkur heimafólk að nýta okkur þessa vefsíðu til að fá hugmyndir að áfangastöðum. Því fylgir mikil ánægja að uppgötva nýja staði á litla landinu okkar. Og auðvitað eiga allir að senda slóðina á fólk í útlandinu, til að fá það hingað til lands.

Stefnt er að því að halda útitónleika fyrri hluta júnímánaðar á Suðurlandi og senda þá beint út á síðunni.

Einnig er andagiftin á Fésbókinni:

www.facebook.com/inspiredbyiceland.