Ragnar Þór Ingólfsson
Ragnar Þór Ingólfsson
Eftir Ragnar Þór Ingólfsson: "Voru stjórnendur sjóðanna eins og meðvirkir alkóhólistar sem neituðu að horfast í augu við drykkjuvandamál bankanna eða spiluðu þeir blindfullir með?"

Nú hefur komið fram dapurleg tilraun stjórnenda lífeyrissjóðanna til að skilgreina sig sem þolendur í hruninu.

Hið rétta er að almennir sjóðsfélagar voru þolendur en ekki stjórnendur. Stjórnendur sjóðanna gerðu lífeyrissjóðina að gerendum í bankahruninu á kostnað hins almenna sjóðsfélaga.

Það er átakanlegt að horfa upp á þá sem bera ábyrgð á fordæmalausri áhættusækni og peningamokstri í svikamyllur skrúðkrimmanna ætla að stilla sér upp við hlið okkar sjóðsfélaga sem fórnarlömb. Það er algerlega siðlaust.

Stjórnendur sjóðanna voru gerendur í þessu máli. Þeir bera ábyrgð lögum samkvæmt. Þeir fóru í partíin, þeir létu plata sig, þeir sváfu á verðinum og engir aðrir. Ekki voru ofurlaunin til að kvarta yfir því ábyrgðin var mikil við að stýra eftirlaunasjóðum almúgans.

Hvað er ábyrgð? Hvar er ábyrgðin?

Það hafa komið fram spurningar um hvort lífeyrissjóðirnir færu í skaðabótamál við gömlu bankana. Sú spurning kom fram á sínum tíma þegar Vilhjálmur Bjarnason stefndi stjórnendum Glitnis vegna sjálftöku þeirra.

Nokkrir þaulreyndir lögmenn töldu það hæpið þar sem lífeyrissjóðirnir áttu stjórnarmenn í bönkunum og þar af leiðandi komu að ákvarðanatöku um lánveitingar bankanna til tengdra aðila.

Sem dæmi sat Gunnar Páll, fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, í stjórn og lánanefnd Kaupþings í sameiginlegu umboði stærstu sjóðanna.

Gunnar er líklega eini maðurinn innan kerfisins sem tók ábyrgð á afar óheppilegri stöðu sinni sem er ekkert einsdæmi í sögu sjóðanna. Þeir eru ófáir foringjarnir hjá aðilum vinnumarkaðarins sem gegnt hafa ábyrgðarstöðum innan fjármálageirans. Ásmundur Stefánsson, fyrrverandi forseti ASÍ, er líklega sá valdamesti í dag.

Lífeyrissjóðirnir höfðu gríðarleg ítök í bankakerfinu og í fyrirtækjum útrásarvíkinganna. Stjórnendur sjóðanna fjárfestu eins og engin væri morgundagurinn í þeim sýndarveruleika sem settur var á svið fyrir almenning. Þeir áttu svo sannarlega sinn þátt í að halda svikamyllunni gangandi með því að fjárfesta í botnlausri hítinni fram á síðasta dag, gegn betri vitund.

Þetta var gert í skjóli bankaleyndar og þagnarskyldu.

Upplýsingar sem stjórnendur sjóðanna höfðu aðgang að en almenningur ekki.

Sjóðirnir keyptu skuldabréfaútgáfur útrásarkrimmanna í stórum stíl þó vitað væri að veldi þeirra væri á stórskuldum byggt.

Eftir að hafa lesið útboðslýsingar á skuldabréfaútgáfum Bakkavarar, Exista, Símans og fleiri fyrirtækja sést vel hversu glórulausar fjárfestingar þetta voru.

Þetta sýnir að Bakkavararbræður hefðu allt eins getað skrifað 5 milljarða á gulan post-it miða og lagt inn í sjóðina sem skuldaviðurkenningu. Post-it miðinn hefði líklega ekki fengist skráður í kauphöllinni en virði skuldabréfsins og post-it miðans væri það sama í dag.

Höguðu stjórnendur lífeyrissjóðanna sér eins og meðvirkir alkóhólistar sem neituðu að horfast í augu við drykkjuvandamál bankanna og útrásarfyrirtækjanna eða spiluðu þeir blindfullir með?

Vissulega voru einhverjir blekktir en einhverjir hljóta að hafa haft vitneskju um hvað var í gangi.

Þeir stjórnendur sem enn sitja við ketkatlana segja auðvelt að vera vitur eftir á sem er að nokkru leyti rétt ef tekið er tillit til aðgangs sjóðselítunnar að upplýsingum sem almenningur hafði ekki, og hefur enn ekki aðgang að í dag. Upplýsingar sem auðvelt var að nálgast og stjórnum sjóðanna bar skylda til að skoða ofan í kjölinn áður en lán voru veitt eða hlutabréf keypt.

Hver er krafa sjóðsfélaga til þeirra sem þáðu boðsferðir, gjafir, tugmilljónir í laun, bónusa, lúxusbíla og veiðiferðir?

Ef stjórnendur sjóðanna voru svo grandalausir gagnvart því leikriti sem sett var á svið fyrir almenning, að þeir keyptu allt sem að þeim var rétt, hljóta þeir í það minnsta að hafa sýnt af sér stórfellda vanrækslu.

Sjóðsfélagar hafa aðgang að öllum skuldabréfaútgáfum skráðum í Kauphöll Íslands. Stjórnendur sjóðanna neita að gefa upp hversu mikið þeir keyptu í þessum útgáfum.

Hver er ábyrgð þeirra, sem nú þykjast þolendur, á gríðarlegum skuldavanda heimilanna? Með glórulausu fjármálasukki lífeyrissjóðanna hafa ekki einungis réttindi sjóðsfélaga verið skert heldur hefur gríðarleg eignaupptaka í fasteignum almennings átt sér stað í formi verðbóta verðtryggðra fasteignalána. Lífeyrissjóðirnir voru og eru stærstu eigendur fasteignalána og hafa síðan 2008 eignfært yfir 100 milljarða í formi verðbóta vegna þeirra.

Steingrímur J. spyr hvar eigi að taka peninga til að leiðrétta stökkbreyttan höfuðstól húsnæðislána. Svarið er einfaldlega að sækja þá þangað sem þeir fóru.

Er lífeyriskerfið að skapa okkur lakari lífsgæði í 40 ár til þess eins að reyna að borga okkur hærri lífeyri í nokkur ár eftir að vinnuskyldu lýkur? Kerfið virðist ekki skilja að þessi „hugsanlega“ hærri lífeyrir sem við fáum fyrir áratuga verðtryggða hávaxtastefnu með kerfisbundnum áföllum, kemur til með að senda okkur eignalítil og stórskuldug á lífeyri. Hvað verður þá eftir til lágmarksframfærslu eftir skuldir?

Stjórnendur sjóðanna 37 voru súrefnið fyrir bálköst skrúðkrimmanna, eldiviðurinn var ævisparnaður almennings.

Höfundur er stjórnarmaður í VR.