Farbann yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi og Steingrími Kárasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra...

Farbann yfir Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi og Steingrími Kárasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar bankans, rann út í gær.

Sérstakur saksóknari fór ekki fram á framlengingu farbanns og sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, í gær, að staða málsins hafi verið metin svo, að ekki hafi verið talin nauðsyn til að takmarka ferðir þeirra. Hins vegar geti komið til þess að þeir verði kallaðir aftur til skýrslutöku.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más, segir að ekki muni standa á skjólstæðingi sínum eftir sem áður að svara kalli sérstaks saksóknara.

Snúa aftur heim um helgina

Allir eru Kaupþingsmennirnir fjórir búsettir í Lúxemborg og þangað halda þeir um helgina. „Hann er náttúrlega búsettur erlendis og hefur verið frá fjölskyldu og vinnu allan þennan tíma,“ segir Hörður Felix. Spurður út í afstöðu Hreiðars Más til rannsóknarinnar segir Hörður Felix: „Þetta snýst ekki um að lýsa sekt eða sakleysi. Verið er að reyna að skýra ákveðin viðskipti sem áttu sér stað undir lokin.“ andri@mbl.is