Málstofa Gros ræddi hugmyndir sínar um framtíðarskipan fjármálakerfisins á málstofu í Háskóla Íslands. Til hægri er Sigríður Benediktsdóttir.
Málstofa Gros ræddi hugmyndir sínar um framtíðarskipan fjármálakerfisins á málstofu í Háskóla Íslands. Til hægri er Sigríður Benediktsdóttir. — Morgunblaðið/hag
Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Hagfræðingurinn Daniel Gros telur að endurreist fjármálakerfi á Íslandi þurfi að vera minna og einfaldara en áður var. „Með því á ég við hefðbundna banka sem taka við innistæðum og lána einstaklingum og fyrirtækjum.

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Hagfræðingurinn Daniel Gros telur að endurreist fjármálakerfi á Íslandi þurfi að vera minna og einfaldara en áður var. „Með því á ég við hefðbundna banka sem taka við innistæðum og lána einstaklingum og fyrirtækjum. Eins og Íslendingar hafa kynnst getur risavaxið fjármálakerfi verið hættulegt fyrir fámenna þjóð,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Einföld fjármálaþjónusta

Gros nefnir að uppbygging íslenska hagkerfisins sé nokkuð einföld: „Stærstur hluti þess gjaldeyris sem kemur inn í landið er vegna útflutnings á sjávarafurðum og áli. Vatnsaflsvirkjanir og framkvæmdir tengdar þeim hafa einnig verið veigamikill þáttur raunhagkerfisins. Þessir atvinnuvegir krefjast ekki mjög þróaðrar fjármálaþjónustu, þó svo að hefðbundinnar fjármögnunar sé vitaskuld þörf. Einfalt, lítið og stöðugt bankakerfi getur útvegað þá þjónustu. Ef íslensk fyrirtæki þurfa á flókinni fjármálaþjónustu að halda í sinni starfsemi, ættu þau að sækja slíka þjónustu til erlendra banka.“

Hagfræðingurinn bendir á að enginn myndi hafa trú á því í dag ef Íslendingar hæfust handa við að byggja upp voldugt fjármálakerfi. Hins vegar sé mikill fjöldi fólks hér á landi sem hafi þekkingu á bankarekstri, sem felur í sér sóknarfæri fyrir erlenda banka. „Í Lúxemborg eru nánast engir lúxemborgskir bankar, þar eru bara útibú eða dótturfélög banka frá öðrum löndum. Ef bankarnir á Íslandi eru í erlendri eigu þurfa Íslendingar ekki að halda uppi jafn umfangsmiklu eftirliti og nú er, því yrði að einhverju leyti útvistað til erlendra aðila.“

Gros segir að mikilvægt sé fyrir Íslendinga að fjármögnun sé í auknum mæli byggð á innlendu fjármagni. „Til framtíðar ætti að treysta meira á innlendan sparnað. Á síðustu árum nýttu of margir erlenda fjármögnun, sem endaði ekki vel eins og mörg fyrirtæki og heimili eru til vitnis um. En til þess að það gerist þarf sparnaðarhlutfall á Íslandi að hækka verulega.“

Innlend skráning óhentug

„Samkvæmt einföldum lögmálum um stærðarhagræði er Ísland of lítið fyrir hlutabréfamarkað líkt og er í stærri löndum,“ nefnir Gros. Rafræn viðskipti með hlutabréf geri það að verkum að íslenskum fyrirtækjum sé hugsanlega betur borgið í erlendum kauphöllum. „Þó auðvitað geti verið einhvers konar eftirmarkaður með hlutabréf á Íslandi,“ segir hann.

FIH Í DANMÖRKU

Sameining við NBI?

Daniel Gros nefnir að erlendir fjárfestar muni ekki koma að íslenska fjármálakerfinu að sjálfu sér. Ein leiðin til að alþjóðavæða kerfið væri að nýta danska bankann FIH, sem Seðlabankinn tók sem veð gegn neyðarláni til Kaupþings: „Íslenska ríkið á nú danska bankann FIH með óbeinum hætti. Hægt væri að væri að sameina ríkisbankann NBI þeim banka. Sameinaður banki yrði síðan á ábyrgð danskra eftirlitsaðila. Stjórnvöld þurfa að vera skapandi í hugsun til að finna varanlegt fyrirkomulag á íslenska fjármálakerfinu.“