Þorsteinn Hansson var fæddur í Holti í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi 18. febrúar 1918. Hann lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu 22. maí 2010.

Foreldrar hans voru Hans Bjarni Árnason, f. 27.6. 1883, d. 1958, og Þorbjörg Þórkatla Árnadóttir, f. 27.8. 1879 í Stapabæ á Arnarstapa, d. 1969. Öll börn þeirra voru fædd í Holti en auk Þorsteins voru þau:

Hansbjörg Kristrún, f. 1906, d. 1906, Árni Kristinn, f. 1907, d. 2006, Guðríður Margrét, f. 1911, d. 1995, Hans Guðmundur, f. 1913, d. 1998, Kristvin Jósúa, f. 1915, d. 2005, Hallgrímur, f. 1916, d. 1997, og Arnór Lúðvík, f. 1920, d. 2006.

Þorsteinn kvæntist Karolínu Láru Vigfúsdóttur 28. maí 1955 og bjuggu þau allan sinn búskap í Ólafsvík. Síðustu 17 ár ævi sinnar bjó Þorsteinn á Hrafnistu í Reykjavík.

Börn Þorsteins og Karolínu eru : 1) Bjarni Birgir, f. 1954, eiginkona hans er Birna Árnadóttir. Uppeldisdætur Birgis og dætur Birnu eru a) Jónína Björk Hlöðversdóttir, eiginmaður hennar er Skúli Gunnsteinsson og eiga þau fjóra syni, Gunnstein Aron, f. 1993, Darra Loga, f. 1995, Breka Þór, f. 2001, og Núma Jökul, f. 2004. b) Linda Dögg Hlöðversdóttir, f. 1967. 2) Sigurður Þ.K., f. 1957, eiginkona hans er Margrét Jónína Gísladóttir og eiga þau þrjú börn, a) Jónínu Margréti, f. 1988, sambýlismaður hennar er Einar Björgvinsson og eiga þau eina dóttur, Þórdísi Kötlu, f. 2008, b) Láru Rannveigu, f. 1990, c) Karel, f. 1992. Stjúpdóttir Þorsteins dóttir Karolínu frá fyrra hjónabandi er Ester Gunnarsdóttir, f. 1942, eiginmaður hennar er Gunnar Gunnarsson þau eiga þrjá syni, a) Jónas, f. 1962, sambýliskona hans er Ellen Klara Eyjólfsdóttir og eiga þau tvo syni Davíð Snorra, f. 1987, og Jóhann Birgi, f. 1990, b) Þorstein Gunnar, f. 1980, sambýliskona hans er Ásta Björk Birgisdóttir, þau eiga einn son Snæbjörn Kára, f. 2009, c) Karl Lárus, f. 1983, sambýliskona hans er Guðrún Erla Víðisdóttir og eiga þau eina dóttur Emilíu Alís, f. 2008.

Þorsteinn fæddist að Brimisvöllum í Fróðárhreppi og ólst þar upp, en flutti á unglingsárum með foreldrum sínum að Kaldalæk í Ólafsvík. Og bjó síðan í Ólafsvík lengst af. Þorsteinn stundaði sjómennsku og fiskvinnslustörf alla sína ævi. Síðustu 17 árin dvaldi hann á Hrafnistu í Reykjavík.

Útför Þorsteins verður gerð frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 29. maí 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Þegar ég hugsa um afa er fernt sem kemur mér til hugar, það eru pönnukökur, göngur, köldu hendurnar hans og dans.

Þegar afi bjó á Jökulgrunni fengum við fjölskyldan reglulega boð um að koma til hans í pönnukökur, sem okkur þótti auðvitað ekki leiðinlegt. Pönnukökurnar hans afa voru þær bestu í heimi og hann bakaði alltaf heilan helling í hvert skipti svo enginn fór út án þess að vera við það að springa.

Afi var alltaf rosalega duglegur að fara út í göngutúra, hann fór meira að segja nokkrum sinnum á dag og nánast til síðasta dags. Ég man alltaf eftir því þegar ég var á leiðinni í vinnuna á Hrafnistu og sá afa sitja á bekk í næstu götu. Ég stöðvaði bílinn og komst þá að því að hann hafði gengið aðeins of langt og komst ekki aftur til baka svo hann varð samferða mér, en tveimur klukkustundum síðar var afi kominn aftur á kreik eins og ekkert hefði í skorist.

Alltaf þegar ég fór til afa rétti hann mér höndina og nánast í hvert skipti spurði ég hann hvort honum væri kalt en svarið var alltaf það sama, nei kaldar hendur, heitt hjarta. Það var svo sannarlega rétt hjá honum því afi var með heitt hjarta og var aldrei feiminn við að sýna manni væntumþykju.

Afi átti sér tvo uppáhaldsdansa, Óla skans og vínarkruss, og það vita allir sem þekktu hann eitthvað því afi elskaði að dansa. Það voru ófá skiptin sem við afi tókum sporið hvort sem það var á balli á Hrafnistu eða í stofunni heima hjá mömmu og pabba. Þegar afi dansaði var eins og hann svifi um gólfið því hann var svo léttur á fæti og gleðin leyndi sér ekki í andlitinu á honum. Afi var mjög heppinn að geta gert það sem hann unni mest þrátt fyrir háan aldur.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa eytt eins miklum tíma hjá honum og ég gerði síðastliðin fjögur ár og þar af leiðandi getað kynnst honum betur.

Með þessum orðum kveð ég þig, elsku afi minn.

Hvíl í friði.

Þitt barnabarn,

Jónína.

Ég hef þekkt Steina frá því ég var lítil stelpa, þegar móðir mín giftist Bigga syni hans. Fyrsta skiptið sem ég man eftir honum var heima hjá honum og Köllu í Ólafsvík og fann ég strax fyrir því að þarna var skemmtilegur og kátur maður á ferð. Það er einmitt það sem hefur einkennt Steina, hann var alltaf svo glaður og jákvæður. Ekki man ég eftir einu skipti þar sem hann kveinkaði sér yfir einu né neinu, þetta finnst mér vera einn besti kostur sem ég get hugsað mér. Hann hafði líka skemmtilegar sögur að segja af afrekum sínum eins og sjósundinu og ekki síður danstöktum sínum.

Steini var nefnilega afburðadansari og var einn vinsælasti dansfélaginn á Hrafnistu og glaður sýndi hann mér nokkur spor þegar ég var fyrst að læra dans. Ég á eftir að sakna þess að eyða með honum jólunum eins og ég hef gert oftast seinustu 18 árin. Það verður mjög tómlegt hjá okkur án hans.

Biggi, Siggi, Ester og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessum erfiðum tímum.

Linda Dögg Hlöðversdóttir.