Guðmundur Garðar Guðmundsson fæddist í Reykjavík 22. febrúar 1956. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 5. maí síðastliðinn.

Útför Guðmundar var gerð frá Kristskirkju Landakoti 14. maí 2010.

Miðvikudagur. – Og lífið gengur sinn gang.

Eins og guð hefur sjálfur í öndverðu hugsað sér það.

Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,

Því svona hefir það verið og þannig er það.

Þannig komst Steinn Steinarr að orði í sínu ágæta ljóði forðum. Það var á miðvikudagskvöldi sem ég fékk fréttir af andláti vinar míns Guðmundar Garðars. Það var hins vegar að hausti þjóðhátíðarárs '74 sem ég fyrst hitti vin minn, þá hófum við báðir störf sem fjárhirðar á Hesti í Borgarfirði. Það var trúlega nokkuð margt sem tengdi okkur helst vinaböndum, báðir hestelskir, ljóðelskir og báðir fengið að kynnast því að verða föðurlausir rétt um fermingu. Báðir vorum við fullir bjartsýni og trúar á tilveruna eins og eðlilegt er um unga menn, báðir nokkuð uppreisnargjarnir gagnvart heiminum í heild sinni og báðir jafnvel nokkuð áhugasamir um það kyn sem kallað var veikara á þeim árum. Við vorum eins og títt var á þeim árum, allavega af þeim sem höfðu alist við alþýðukjör, nokkuð róttækir í skoðunum og leyfðum okkur að trúa á jafnrétti í allri sinni mynd. Ef ég man rétt var vinstristjórn í landinu um þessar mundir og nokkuð lífvænlegt, jafnvel fyrir fjárhirða á launaskrá ríkisins. Við Gummi rifjuðum oft upp þessa vetrarmánuði sem við vorum samtíða á Hesti, enda báðum þessi tími minnisstæður af mörgum ástæðum og sjálfsagt efni í óendanlega langa sögu þær minningar sem okkur voru hugstæðar frá þessum tíma. Eftir dvölina á Hesti hélt hvor sína braut á leið út í lífið, en héldum alla tíð sambandi eftir þetta, og á allra síðustu árum leið aldrei langur tími án sambands okkar á milli. Guðmundur hafði þann kost að leggja aldrei illt til nokkurs manns og halda jafnan hlífiskildi yfir þeim sem minna máttu sín, enda naut hann sín vel í starfi og umönnun þeirra sem ekki bundu sitt trúss með hætti þess hluta þjóðarinnar sem telur sig í lagi vera. Hann var söngmaður og gleðimaður á góðra vina fundum og ávallt vinur í raun, en fótaði sig kannski ekki sem skyldi á hálum brautum lífsins eftir vegi meðalmennskunnar. Vinur minn Gummi var áhugamaður í leiklist, kórstarfi og tók þátt í verkalýðsmálum, enda umhugað um sinn rétt og annarra varðandi kjaramál. Gummi hafði alla tíð mikinn áhuga á heims- og landsmálapólitík, enda vel lesinn og minnugur á flesta hluti þá sem áhuginn leiddi hann. Ég kveð vin minn með söknuði og sendi hans nánustu mínar samúðarkveðjur með þessum fáu orðum.

Miðvikudagur. – Og lífið gengur sinn gang,

Og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.

(Steinn Steinarr)

Magnús Halldórsson.