Kimar Seúl-búi með myndir af Kim Jong-Un og afa hans, Kim Il-sung.
Kimar Seúl-búi með myndir af Kim Jong-Un og afa hans, Kim Il-sung. — Reuters
Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Fréttaskýrendur í Seúl telja að stríðsyfirlýsingar stjórnvalda í Norður-Kóreu síðustu daga megi rekja til þess að Kim Jong-Il, leiðtogi landsins, sé að undirbúa valdatöku sonar síns, sem er ungur að árum, óreyndur og óþekktur, jafnvel í heimalandi sínu.

Fréttaskýrendurnir telja þetta líklegustu skýringuna á hörðum viðbrögðum ráðamannanna í Norður-Kóreu við ásökunum um að her landsins hafi sökkt suður-kóresku herskipi með tundurskeyti 26. mars. 46 sjóliðar biðu bana í árásinni.

The New York Times hefur eftir einum fréttaskýrendanna í Seúl, Choi Jin-wook, að áformin um að sonur leiðtogans taki við völdunum sé „sá þáttur sem tengi alla aðra þætti þegar reynt er að útskýra hvers vegna Norður-Kóreumenn gera það sem þeir hafa gert síðustu daga. Án hans er engin skýring fullnægjandi eða sannfærandi.“

Vill tryggja stuðning hersins

Fréttaskýrendurnir telja að norður-kóresku ráðamennirnir hafi fyrirskipað árásina á suður-kóreska herskipið og blásið síðan í stríðslúðra til að þjappa þjóðinni saman og tryggja sér stuðning hersins. „Kim Jong-il þarf að skapa ástand, sem líkist stríði, heima fyrir til að knýja fram áformin um að sonur hans taki við völdunum. Til þess þarf hann spennu og óvin að utan,“ hefur The New York Times eftir öðrum sérfræðingi í málefnum Norður-Kóreu, Cheon Seong-whun.

Kim Jong-il er 68 ára og hermt er að hann sé heilsuveill eftir að hafa fengið heilablóðfall í ágúst 2008. Talið er að hann hafi valið yngsta son sinn af þremur, Kim Jong-Un, sem eftirmann sinn.

Mjög lítið er vitað um Jong-Un, sem er annar sonur leiðtogans með þriðju konu hans. Nokkrir fjölmiðlar í Suður-Kóreu segja að Jong-Un hafi fæðst árið 1983 og hafi gengið í alþjóðlegan skóla í svissnesku borginni Bern undir dulnefni.