Henny fæddist á Borgundarhólmi í Danmörku hinn 25. mars 1937. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut þriðjudaginn 27. apríl 2010.

Útför Hennyjar fór fram frá Fossvogskirkju 10. maí 2010.

Elsku mamma, þá er komið að kveðjustund. Þá rifjast upp gamlar minningar þegar við fórum til Borgundarhólms á jólunum að hitta ömmu og afa og bræður þína og fjölskyldur. Þetta voru góðar stundir. Við áttum líka góðan tíma saman þegar fjölskyldan var saman í brúarvinnu nokkur sumur um allt land. Árið 1984 áttuð þið pabbi 25 ára brúðkaupsafmæli og þá kom Addý vinkona þín frá Danmörku til Íslands og þá var ákveðið að ég, þú og pabbi færum um sumarið út til ömmu á Borgundarhólm. Árið 1987 urðu miklar breytingar hjá okkur, því þá slasaðist pabbi í vinnuslysi. Þú fórst á hverjum degi til pabba nema þegar þú fórst í 3 vikur á ári til Danmerkur, svona var þetta í 17 ár eða þar til árið 2004 er pabbi veiktist og dó. Ég vil þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir pabba sem ég get aldrei þakkað nóg fyrir.

Þann 4. september 2009 fékkst þú greiningu á þeim sjúkdómi sem þú lifðir með eftir það, þú fluttir þá austur á Rauðalæk þar sem ég og Sóley systir búum. Þú bjóst heima hjá Sóleyju og Tobba. Ég ætla að þakka Sóleyju systur og Tobba fyrir allt sem þau gerðu fyrir mömmu í hennar veikindum. Það verður sárt að geta ekki leitað til þín um ýmsa hluti. Vonandi lagast það með tímanum, en allir sem þekktu þig eiga eftir að sakna þín.

Bless kjarnakona, ég geymi minningarnar um þig í hjarta mínu það sem ég á eftir ólifað.

Þín verður sárt saknað.

Þinn sonur,

Kristján.

Þegar gróður tók að lifna á ný kvaddi Henny þetta jarðlíf. Hún háði hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm og nánast fram á síðasta dag var hún staðráðin í að hvika hvergi. Hún var óþreyjufull að komast út í vorið, vorverkin í garðinum hennar í Birkilaut á Vatnsenda biðu. Henny var jafnan manna fyrst til að bretta upp ermar og ganga í vorverkin. Þá fór þessi grannvaxna, fíngerða kona, svo kvik í hreyfingum, um garðinn sinn af svo mikilli natni og fítonskrafti að unun var á að horfa. Að verki loknu kunni hún svo einstaklega vel þá list að njóta líðandi stundar. Með trega og söknuði líða margar góðar stundir sem við áttum saman í garðinum í gegnum hugann.

Leiðir okkar lágu saman þegar ég átti því láni að fagna að verða nágranni Henny Torp frá Borgundarhólmi. Smátt og smátt kynntist ég þessari harðduglegu konu og lífsbaráttu hennar en hún mætti mótlætinu í lífi sínu með æðruleysi og einstakri bjartsýni. Þegar ég kynntist henni fyrst heimsótti hún Pálma, eiginmann sinn, dag hvern en hann dvaldi á sjúkrastofnun í 17 ár eftir hörmulegt vinnuslys. Pálmi lést árið 2004.

Á meðan Pálmi var heill heilsu tóku þau Henny þátt í brúargerð í áratug víðs vegar um landið og enduðu á Borgarfjarðarbrúnni. Allt sumarið voru þau í vinnubúðum með börnin þrjú. Henny sá um matargerð fyrir vinnuflokkinn og Pálmi vann við brúarsmíðina.

Alúð, tillitssemi og tryggð Hennyjar var aðdáunarverð. Það var ríkur þáttur í hennar lífi að hlúa að öllum, fjölskyldu sinni, vinum og þeim sem hún sinnti hjá heimilisþjónustunni í Kópavogi þar sem hún starfaði í tvo áratugi. Eftir vinnulok hugsaði hún oft til þeirra sem hún hafði sinnt þar og velti fyrir sér hvort þeir fengju örugglega þá aðstoð sem þeir þörfnuðust.

Gildin, heiðarleiki og nægjusemi koma upp í hugann þegar Hennyjar er minnst, hún lagði ríka áherslu á að breyta rétt í hvívetna og gerði litlar kröfur til efnislegra gæða, „maður á að vera ánægður með það sem maður hefur,“ sagði hún jafnan. Þegar Henny flutti á Vatnsenda fyrir 45 árum fór ekki mikið fyrir þeim lífsþægindum sem þykja sjálfsögð í dag. Byrjað var smátt og síðan byggt við og bætt eftir efnum og aðstæðum.

Henny var mikil hannyrðakona og féll henni ekki verk úr hendi. Hún prjónaði hlýjar flíkur á alla fjölskylduna og naut þess að geta gefið. Hún átti líka lifandi áhugamál sem var dansinn en hann var henni mikill gleðigjafi. Hún bar sig eins og drottning í danskjólnum og fyrir allan mun vildi hún ekki missa af dansinum sem var tvisvar í viku. Oft bar það við að hún brá sér líka í dansskóna á sunnudagskvöldum og fékk sér snúning með dansfélögum sínum, „aðeins svona til tilbreytingar,“ sagði hún og glettnin og kátínan skein úr augum hennar. Þannig vil ég minnast Hennyjar.

Með þessum fáu minningarbrotum vil ég lýsa þakklæti mínu fyrir að fá að kynnast Henny, fyrir vináttu hennar og allt það góða sem ég hef lært af henni. Ég sendi börnum hennar, tengdabörnum og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þorgerður.