Öflug Mikið mun mæða á Rakel Dögg Bragadóttur gegn Austurríki.
Öflug Mikið mun mæða á Rakel Dögg Bragadóttur gegn Austurríki. — Morgunblaðið/Kristinn
Ívar Benediktsson iben@mbl.is Í dag kemur í ljós hvort íslenska kvennalandsliðinu í handknattleik tekst að skrifa nýjan kafla í handknattleikssögu landsliðs með því að tryggja sér í fyrsta sinn keppnisrétt í lokakeppni Evrópumóts.

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Í dag kemur í ljós hvort íslenska kvennalandsliðinu í handknattleik tekst að skrifa nýjan kafla í handknattleikssögu landsliðs með því að tryggja sér í fyrsta sinn keppnisrétt í lokakeppni Evrópumóts. Þá sækir íslenska landsliðið það austurríska heim í lokaleik 3. riðils undankeppninnar. Úrslit leiksins ráða því hvort það verður íslenska landsliðið eða það austurríska sem fylgir Frökkum eftir úr riðlinum í lokakeppni Evrópumótsins sem haldið verður 6.-19. desember í Danmörku og Noregi.

Ísland vann fyrri viðureignina við Austurríki í riðlakeppninni, 29:25.

Vinni Ísland leikinn í dag, sem fram fer í smábænum Stockerau, eða að hann endar með jafntefli, tryggir Ísland sér keppnisrétt á EM í Austurríki. Ísland getur komist áfram þótt það tapi, svo fremi sem tapið verður ekki meira en fjögurra marka munur. Vegna þess að Ísland vann fyrri leikinn við Austurríki með fjögurra marka mun má íslenska liðið tapa með fjögurra marka mun. Þá standa Ísland og Austurríki jöfn að stigum og með jafna markatölu í innbyrðis leikjum. Komi til þess þá fer íslenska liðið áfram á kostnað Austurríkis vegna þess að heildarmarkatala Íslands í öllum leikjum riðilsins, viðureignir við Frakkland og Bretland reiknast þá með, er mikið mun betri en austurríska liðsins sem nemur 21 marki Íslandi í vil. Tapi íslenska liðið hinsvegar með fimm marka mun eða meira situr það eftir með sárt ennið.

Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari segir að hann og leikmennirnir hugsi ekkert um aðra möguleika í stöðunni en þann að vinna leikinn í dag.

Aðeins sigur kemur til greina

„Við förum vitanlega í leikinn til þess að vinna, annað kemur ekki til greina,“ sagði Júlíus í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Við höfum nokkuð góða mynd af austurríska liðinu. Stutt er síðan við lékum gegn því. Það er skipað nær sömu leikmönnum og í október þegar við mættum því heima. Þó hefur bæst við hávaxin skytta sem var meidd í haust. Við erum með upptökur af leikjum austurríska liðsins eftir að hún bættist í hópinn og hún á ekki að koma okkur í opna skjöldu þótt ljóst sé að tilkoma hennar styrkir austurríska liðið nokkuð,“ sagði Júlíus.

Spurður hvað leikmenn íslenska landsliðsins verði að hafa sérstaklega í huga í leiknum í dag, sagði hann aðalatriðið vera það að varnarleikurinn verði fyrsta flokks og alls ekki síðri en gegn Frökkum í leiknum í Laugardalshöll á miðvikudagskvöldið. „Þá verðum við að ná upp markvörslu. Ef þessi tvö atriði verða í góðu lagi þá fáum við nokkuð af hraðaupphlaupum og þau verðum við að nýta mjög vel. Við megum ekki gera mörg mistök og það á einnig við um uppstilltan sóknarleik. Í honum verðum við að fækka mjög mistökum frá leiknum við Frakka,“ sagði Júlíus.

Hafa lausnir á takteinum

Í fyrri viðureign Íslendinga og Austurríkismanna í haust náði íslenska liðið sjö til níu marka forskoti í síðari hálfleik en missti forskotið niður í fjögur mörk áður en yfir lauk. Ástæða fyrir því að íslenska liðið missti niður forskotið var sú að það gat ekki brugðist við þegar austurríska liðið breytti um varnarleik og fór yfir í framliggjandi vörn. Júlíus segir að allt frá leiknum í haust hafi íslenska liðið lagt mikla vinnu á æfingum sínum við að hafa á takteinum lausnir ef austurríkismenn leiki framliggjandi vörn. „Við eigum núna að vera með lausnir í farteskinu, lausnir sem við höfum ekki aðeins verið að þreifa okkur áfram með í gær og í dag heldur á mörgum síðustu æfingum.“

Hanna Guðrún Stefánsdóttir leikur stórt hlutverk í íslenska landsliðinu. Hún meiddist aðeins á hné í leiknum við Frakka í vikunni og mun hún ekki vera búin að jafna sig. Júlíus vildi ekkert ræða það í gær. „Hanna verður klár í slaginn eins og aðrir leikmenn, það er engin spurning,“ sagði Júlíus síðdegis í gær þar sem hann var nýkominn af æfingu með landsliðinu í keppnishöllinni í smábænum Stockerau. „Keppnishöllin er ekki stór. Ég veit ekki hversu marga hún rúmar en þetta er örugglega mikil gryfja ef hún er full af áhorfendum.“

Annað sæti

» Frakkar eru efstir í 3. riðli undankeppni EM með 10 stig, Ísland hefur 8 stig, Austurríki 6 og Bretland ekkert. Hver þjóð hefur spilað fimm leiki
» Austurríki getur jafnað metin og komist upp fyrir Ísland með því að vinna með fimm mörkum eða meira í dag.
» Flautað verður til leiks Íslands og Austurríki kl. 18.22 í dag. Hægt verður að fylgjast með leiknum á mbl.is og á Sporttv.is