Sigurður Magnússon
Sigurður Magnússon
Eftir Sigurð Magnússon: "Margrét Jónsdóttir skrifar grein í Morgunblaðið í gær og fjallar þar um kæru sem hún ásamt forystumanni D-listans á Álftanesi hefur sent sveitarstjórnarráðuneytinu, vegna lántöku fyrrverandi bæjarstjóra Á-lista í fyrravor."

Margrét Jónsdóttir skrifar grein í Morgunblaðið í gær og fjallar þar um kæru sem hún ásamt forystumanni D-listans á Álftanesi hefur sent sveitarstjórnarráðuneytinu, vegna lántöku fyrrverandi bæjarstjóra Á-lista í fyrravor. Kærendur telja að bæjarráð hafi ekki veitt heimild til lántökunnar. Hér er hallað réttu máli, lántakan var kynnt bæjarráði sem hafði sett í forgang margvíslegar framkvæmdir um sumarið 2009 í samræmi við fjárhagsáætlun og stefnu bæjarstjórnar, s.s. frágang á skóla- og íþróttasvæði, lokafrágang á íþróttamiðstöð og framkvæmdir á miðsvæðinu, s.s. hönnun gatna og lóða.

Lántakan var skammtímalán til 10 mánaða, frá viðskiptabanka sveitarfélagsins, en mátti greiða upp fyrr. Ákveðið er í lánasamningi að lánið verði tekið í hlutum eftir þörfum. Lánasamningurinn gerir ráð fyrir hagkvæmari kjörum en hefðbundinn yfirdráttur og var þá hagkvæmasti kostur bæjarsjóðs. Bæjarráð hafði áður í samræmi við tillögur fjármálastjóra frestað skuldabréfaútgáfu til haustsins 2009, líkt og mörg önnur sveitarfélög í lánsfjárvanda. Ljóst var líka í júní að með framkvæmdum á miðsvæðinu eignaðist sveitarfélagið skuldabréf vegna sölu byggingaréttar, 414 milljónir, og vegna gjaldtöku gatnagerðargjalda, u.þ.b. 150 milljónir, og var áformað að selja hluta þessara bréfa síðar á árinu og létta með þeim hætti á fjárþörf bæjarsjóðs.Við þetta má bæta til upplýsingar að þegar meirihluti Á-lista tók við í júní 2006 hafði bæjarsjóður verið rekinn á yfirdráttarlánum veturinn og vorið 2006 m.a. vegna framkvæmda fyrri bæjarstjórnar við stækkun íþróttahúss og byggingu leikskóla. Meirihluti D-lista fékk síðar ákúrur fyrir þetta vinnulag frá endurskoðanda vegna mikils vaxtakostnaðar. Heimild til þessa yfirdráttar var ekki skráð í fundargerðir bæjarráðs, eins og nú er krafist af Á-lista vegna töku lánsins í fyrra, þótt fyrir liggi vilji bæjarstjórnar um téðar framkvæmdir. Yfirdráttur D-listans 2006 var kominn í 220 milljónir, sem framreiknað til verðs í dag er u.þ.b. 350 milljónir.

Höfundur er fyrrverandi bæjarstjóri og oddviti Á-lista á Álftanesi.