Nýherji Applicon Solutions er eitt af fimm Applicon-félögum Nýherja.
Nýherji Applicon Solutions er eitt af fimm Applicon-félögum Nýherja. — Morgunblaðið/Sverrir
Applicon Solutions, sem er í eigu Nýherja, hefur gert samning við bandaríska fyrirtækið Celanese um sölu á aðgangsstýringarkerfi (APM) fyrir SAP viðskiptahugbúnað.

Applicon Solutions, sem er í eigu Nýherja, hefur gert samning við bandaríska fyrirtækið Celanese um sölu á aðgangsstýringarkerfi (APM) fyrir SAP viðskiptahugbúnað. Gísli Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Nýherja, segir að samningurinn hljóði upp á á annan tug milljóna króna, auk þjónustutekna.

APM-lausnin (Applicon Authorization Process Manager) var þróuð hjá Applicon Solutions í Danmörku og hefur verið innleidd hjá fyrirtækjum í Danmörku og á Íslandi og víðar. Lausnin verður notuð til þess að efla aðgangsstýringar í SAP hjá Celanese, en félagið er leiðandi í efnaiðnaði á heimsvísu. Hjá Celanese starfa um 7.400 manns.

Applicon Solutions, sem hefur aðsetur í Danmörku, hefur lagt aukna áherslu á sölu lausna í Bandaríkjunum að undanförnu. „Við höfum séð áhugaverða þróun á bandaríska markaðnum því mörg vel þekkt fyrirtæki hafa sýnt áhuga á lausnum okkar. Þetta getur gefið tilefni til að ætla að bandaríski markaðurinn sé að taka við sér á ný,“ segir Ole Sølvsten Hemmingsen, framkvæmdastjóri Applicon Solutions, í tilkynningu. Hann segir að danski markaðurinn sé ennfremur að ná sér eftir lægð á síðasta ári, en meðal þeirra sem félagið hefur gert samning við þar í landi er lampaframleiðandinn Louis Poulsen.

Applicon Solutions er eitt af fimm Applicon-félögum Nýherja. Hjá félögunum starfa um 170 sérfræðingar í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi. ivarpall@mbl.is