Ólafur Hannes Finsen fæddist í Reykjavík 24. febrúar 1920 og lést á Landspítalanum 16. maí 2010. Foreldrar hans voru hjónin Carl Finsen, f. 10.7. 1879 í Reykjavík, d. 8.11. 1955, og Guðrún Aðalsteinsdóttir Finsen, f. 8.6. 1885 á Akureyri, d. 25.2. 1959. Systur Ólafs eru: María Sigríður Finsen, f. 25.10. 1916 og Elín Herdís Finsen, f. 18.8. 1918, d. 3.11. 2005.

Ólafur kvæntist 6. des. 1952, Guðbjörgu Finsen, f. 10.2 1926, dóttur hjónanna Aðalsteins Pálssonar skipstjóra, f. 3.7. 1891, d. 11.1. 1956, og Sigríðar Pálsdóttur húsmóður, f. 28.11 1889, d. 11.10. 1930. Börn Ólafs og Guðbjargar: 1) Guðrún, f. 30.9. 1953, gift Bjarne Wessel Jensen, f. 6.5. 1953. Hann á 2 börn frá fyrra hjónabandi og 3 barnabörn, sem öll búa í Danmörku. 2) Aðalsteinn, f. 23.10. 1955, kvæntur Huldu Hrönn Finsen, f. 27.7. 1963. Börn þeirra: Úlfar Gunnar, f. 4.12. 1982, sambýliskona hans er Kristín Rut Jónsdóttir, f. 25.7. 1985. Karen Ósk, f. 16.3. 1990, Ólafur Karl, f. 30.3. 1992, Dagur Kári, f. 3.12. 2003, og Eva Hrönn, f. 10.10. 2005. 3) Sigríður, f. 7.11. 1958, gift Magnúsi Soffaníassyni, f. 5.6. 1961. Börn þeirra Guðbjörg Soffía, f. 7.5. 1992 og Marta, f. 8.11. 1993. Börn Magnúsar frá fyrri sambúð eru: Berglind, f. 18.8. 1984 og Hulda, f. 18.10. 1985, sambýlismaður hennar er Halldór Einir Guðbjartsson, f. 7.5. 1985. Börn þeirra Heiðbrá Clara, f. 16.6. 2008 og Þuríður Brynja, f. 19.4. 2009.

Ólafur bjó alla tíð í vesturbæ Reykjavíkur, gekk í Verslunarskóla Íslands og nam verslunarfræði í London og starfaði hjá tryggingafélögum í Kaupmannahöfn og London. Hann var forstjóri Vátryggingafélagsins hf. og kom að stofnun og rekstri fjölmargra fyrirtækja. Frá 1990 starfaði Ólafur Hannes mikið með syni sínum Aðalsteini við fiskverkunina Tor í Hafnarfirði og alveg fram á síðasta ár mætti hann reglulega til að sinna verkefnum fyrir félagið. Á yngri árum var Ólafur mikill útivistarmaður og fór margar ferðir með Fjallamönnum. Hann var einn af stofnendum Lionsklúbbsins Baldurs og starfaði innan hans um árabil. Ólafur og félagar hans hittust vikulega í kaffispjalli í yfir sex áratugi.

Útför Ólafs fór fram frá Dómkirkjunni 27. maí 2010.

Afi minn, Ólafur Finsen, er látinn. Afi Óli hafði einstaklega þægilega nærveru, hann var rólegur og skemmtilegur. Ég man ekki eftir því að hafa séð hann í slæmu skapi eða að hann hafi látið eitthvað angra sig. Ég efaðist aldrei um það sem hann sagði, það virtist einhvernveginn allt vera hárrétt. Elsku besti afi minn, það er svo skrýtið að vita að ég eigi aldrei aftur eftir að sjá þig og ömmu saman aftur.

Marta Magnúsdóttir.