Styrkur Sigvaldi Helgi Gunnarsson gítarnemandi ásamt Eiði Guðvinssyni.
Styrkur Sigvaldi Helgi Gunnarsson gítarnemandi ásamt Eiði Guðvinssyni.
Tónlistarskóla Skagafjarðar var slitið við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Miðgarði á dögunum. Alls luku 32 nemendur stigsprófi þetta vorið og fjórir áfangaprófi.

Tónlistarskóla Skagafjarðar var slitið við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Miðgarði á dögunum.

Alls luku 32 nemendur stigsprófi þetta vorið og fjórir áfangaprófi.

Góð aðsókn var í skólann en alls stunduðu 307 einstaklingar tónlistarnám þennan skólaveturinn.

Eins og við var að búast var mikið um tónlistarflutning við skólaslitin en fram komu barnakór skólans, Árskóla og Varmahlíðarskóla auk hinna ýmsu hljómsveita skólans, svo sem blásarasveitin, strengjasveitin, hljómsveit yngri nemenda frá Hofsósi og harmonikku- og slagverkssveit frá Varmahlíð.

Þá voru að venju við skólaslit veitt verðlaun fyrir góðan námsárangur úr minningarsjóðum Aðalheiðar Erlu Gunnarsdóttur frá Syðra-Vallholti og Jóns Björnssonar frá Hafsteinsstöðum.

Kolbjörg Katla Hinriksdóttir og Eyþór Ingi Traustason hlutu verðlaun úr sjóði Aðalheiðar Erlu og Sigvaldi Helgi Gunnarsson úr sjóði Jóns Björnssonar sem Eiður Guðvinsson hefur haft umsjón með. Sá sjóður er fjármagnaður með sölu geisladiska með lögum Jóns Björnssonar, sem kom út árið 2003 í tilefni 100 ára afmælis tónskáldsins og kórstjórans. Æ síðan hefur árlega verið veitt úr sjóðnum til efnilegs tónlistarfólks í Skagafirði.