Signý Arnórsdóttir
Signý Arnórsdóttir
Fyrsta stigamótið á Eimskipsmótaröð Golfsambandsins verður haldið á hinum glæsilega Vestmannaeyjavelli um helgina en mótaröðin var kynnt á blaðamannafundi hjá GSÍ á fimmtudag. Athygli vekur að verðlaunafé á mótaröðinni hefur verið aukið umtalsvert.

Fyrsta stigamótið á Eimskipsmótaröð Golfsambandsins verður haldið á hinum glæsilega Vestmannaeyjavelli um helgina en mótaröðin var kynnt á blaðamannafundi hjá GSÍ á fimmtudag. Athygli vekur að verðlaunafé á mótaröðinni hefur verið aukið umtalsvert. Sigurvegarar á hverju móti mótaraðarinnar fá 75.000 króna gjafakort frá Arion banka. 2. sætið gefur 35.000 í aðra hönd og 3. sætið 25.000. 4. – 10. skila kylfingum 6.000 króna gjafakorti frá Arion.

Mótaröðin hefst eins og áður segir um helgina en leiknar verða 36 holur á Flugfélags Íslands mótinu í Eyjum 29. og 30. maí. Eins og greint var frá í Morgunblaðinu á dögunum þá hafði öskufallið ekki slæm áhrif á völlinn í Herjólfsdal heldur þvert á móti að sögn vallarstjórans Örlygs Helga Grímssonar. Næsta mót er Fitness Sport mótið sem haldið verður á Leirdalsvelli hjá GKG 12. og 13. júní. Leiknar verða 54 holur. Íslandsmótið í höggleik verður haldið í Kiðjabergi dagana 22. – 25. júlí og verða spilaðar 72 holur að vanda. Úrval Útsýn mótið er nýtt nafn á Íslandsmótinu í holukeppni sem haldið verður á Garðavelli á Akranesi 6. – 8. ágúst með nýju fyrirkomulagi sem betur verður fjallað um síðar.

Síðasta stigamótið er Egils Gull mótið 28. og 29. ágúst og fer það fram á Strandarvelli á Hellu. Alfreð Brynjar Kristinsson GKG og Signý Arnórsdóttir GK urðu stigameistarar GSÍ í fyrra. kris@mbl.is