Ragnar Benedikt Magnússon fæddist 27. maí 1921 á Höfðaseli á Völlum og fluttist ungur á Seyðisfjörð. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. maí 2010.

Útför Ragnars fór fram frá Bústaðakirkju 27. maí 2010.

Elsku afi minn, ég veit að þú ert kominn á góðan og fallegan stað þar sem þú vakir yfir ömmu og okkur afkomendum þínum. Ennþá finnst mér svo óraunverulegt að þú sért ekki lengur hjá okkur. Skrýtið er að koma heim til ykkar ömmu í Ljósheimanna og vita til þess að þú situr ekki lengur í stólnum þínum góða, með annaðhvort útvarpið eða sjónvarpið hátt stillt. Þessi síðasti dagur lífs þíns sýnir okkur og sannar hversu stutt er á milli gleði og sorgar. Ég er svo glöð að hafa getað tekið utan um þig og kysst þig þegar þú komst inn í Fríkirkjuna á þessum fallega sólríka degi þegar Ragna systir gifti sig, en aldrei hefði mig grunað að þetta yrði þinn síðasti dagur. Þú varst svo flottur, mættur í brúðkaupið í nýju jakkafötunum þínum og leist svo vel út og varst svo ánægður að hafa getað séð fyrsta barnabarnið þitt gifta sig. Ég þakka fyrir að hafa verið með þér þennan dag og að þú hafir átt síðasta daginn þinn ánægjulegan í faðmi fjölskyldu þinnar.

Til þess að takast á við sorgina þá renna fram í hugann allar þær góðu og skemmtilegu minningar sem ég hef átt með þér. Alltaf var jafn gaman og gott að koma í heimsókn til ykkar ömmu í Blesugrófina þar sem þú varst alltaf að bralla eitthvað, annaðhvort inni í bílskúr, uppi á þaki eða að vinna í Rúgbrauðinu gamla sem var einkennið þitt. Þrátt fyrir að þú værir að verða 90 ára gamall varst þú alltaf svo hress og kátur og varst glaðastur þegar fólk kom að heimsækja ykkur ömmu. Alltaf fannst þér gaman að fá okkur barnabörnin og langafabörnin þín í heimsókn og þú gast endalaust verið að fíflast með strákunum, keyrandi þá pjakkana á göngugrindinni þinni og það fannst þeim ekki leiðinlegt. Elsku afi minn, ég vil enda þessa kveðju mína á þessu fallega ljóði eftir besta vin minn. Takk fyrir allar þær stundir sem við áttum saman, þín verður sárt saknað.

Nú sefur þú í kyrrð og værð

og hjá englunum þú nú ert.

Umönnun og hlýju þú færð

og veit ég að ánægður þú sért.

Ég kvaddi þig í hinsta sinn

Ég kveð þig nú í hinsta sinn.

Blessun drottins munt þú fá

og fá að standa honum nær.

Annan stað þú ferð nú á

sem ávallt verður þér kær.

Ég kvaddi þig í hinsta sinn

Ég kveð þig nú í hinsta sinn.

Við munum hitta þig á ný

áður en langt um líður.

Sú stund verður ánægjuleg og hlý

og eftir henni sérhvert okkar bíður.

Við kveðjum þig í hinsta sinn

Við kvöddum þig í hinsta sinn.

(Þursi 1981.)

Ég elska þig, afi minn.

Þitt barnabarn,

Lilja Rún Ágústsdóttir.