Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar eiga erfitt með að fóta sig í keppninni við Besta flokkinn í Reykjavík. Skyndilega er komið fram á sjónarsviðið stjórnmálaafl sem lýtur engum hefðbundnum lögmálum og leyfir sér hluti sem enginn annar kæmist upp með.

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar eiga erfitt með að fóta sig í keppninni við Besta flokkinn í Reykjavík. Skyndilega er komið fram á sjónarsviðið stjórnmálaafl sem lýtur engum hefðbundnum lögmálum og leyfir sér hluti sem enginn annar kæmist upp með. Oddviti framboðsins gengst ekki við því með beinum hætti að um sé að ræða grínframboð og hefur upp á síðkastið að mestu hætt að reyna að slá á létta strengi. Ef horft er til stefnuskrár flokksins og til svara oddvitans er þó erfitt að taka framboðið alvarlega. Samt er ekki ljóst hvort framboðið er eintómt grín eða eitthvað allt annað. Þetta er að vissu leyti snjöll leið því að þar með er gagnrýni á framboðið illmöguleg. Það er ekki hlaupið að því fyrir aðra flokka að gagnrýna stefnumál flokks sem á heimasíðu sinni segir „Í rauninni erum við samt ekki með neina stefnu en við þykjumst vera með hana.“

Slík staðhæfing þætti ekki frambærileg hjá öðrum flokkum og mundi vekja mikla hneykslan. Sömu sögu er að segja um ýmislegt annað á stefnuskrá Besta flokksins, eins og til að mynda að það eigi að vera „ókeypis í strætó fyrir námsmenn og aumingja“ eða „ókeypis tannlæknaþjónusta fyrir börn og aumingja“. Þessum orðum fylgir að liðsmenn Besta flokksins geti „boðið meira af ókeypis en allir aðrir flokkar því við ætlum ekki að standa við það“.

Hægt er að líta svo á að þetta sé ádeila á stefnumál annarra flokka og það er sennilega réttlætingin fyrir þessari framsetningu, þó að það réttlæti tæpast tal um „aumingja“ í þessu sambandi. En sé stefnuskrá Besta flokksins eingöngu ádeila á stefnuskrár annarra, þá stendur eftir spurningin fyrir hvað Besti flokkurinn sjálfur stendur. Ef til vill gerðu frambjóðendur hans aldrei ráð fyrir að þurfa að svara þeirri spurningu þar sem þeir trúðu því líklega ekki að þeir næðu kjöri, að minnsta kosti ekki margir saman.

Nú er staðan hins vegar breytt og þessi flokkur hefur mælst með mest fylgi allra flokka í nokkrum könnunum og jafnvel með meirihluta. Þegar svo er komið er staða framboðsins gerbreytt. Um leið er það óþolandi framkoma gagnvart Reykvíkingum að láta þá ekki vita fyrir hvaða málefni framboðið stendur.

Lýðræðið er á margan hátt ófullkomin leið til að leysa úr sameiginlegum málum fólks. Kjörnir fulltrúar standa ekki alltaf við allt sem þeir segja og fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Þeim verða líka stundum á mistök eins og öðru fólki. En þó að lýðræðið sé ófullkomið og kjörnir fulltrúar almennings einnig, er lýðræðið engu að síður grundvallarþáttur okkar stjórnskipunar og hefur yfirburði yfir aðrar aðferðir. Sjálfsagt er að gagnrýna framkvæmd þess og framgöngu flokka og kjörinna fulltrúa. Það þarf þó að gera án þess að grafið sé undan virðingu fyrir lýðræðinu og án þess að gera kjósendum óleik.

Frambjóðendur Besta flokksins þurfa að velta því fyrir sér hvort grínið eða ádeilan hafi ekki gengið bæði lengra en til stóð og lengra en æskilegt var. Þetta hlýtur einnig að vera kjósendum ofarlega í huga þegar þeir greiða atkvæði í dag.