Á fundi Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Júlíusdóttir.
Á fundi Jóhanna Sigurðardóttir og Katrín Júlíusdóttir. — Morgunblaðið/Ómar
„Það er ekkert frumvarp í smíðum eða uppi á borðunum.

„Það er ekkert frumvarp í smíðum eða uppi á borðunum. Menn eru bara að skoða þessa stöðu, hvort hægt sé að setja einhverjar frekari skorður,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í gær, þegar hún ræddi við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund. Hún sagði málefni Magma Energy og HS Orku hafa verið „lauslega“ rædd á fundinum. Ráðherrar iðnaðar- og umhverfismála muni vinna málið saman áfram.

Í fyrradag sagðist Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra vilja leggja fram frumvarp þess efnis að einkaaðilar mættu ekki eiga meira en þriðjungshlut í orkufyrirtækjum. Steingrímur J. Sigfússon hefur einnig sagt flokkinn vera að skoða þau mál.

Jóhanna segir samstarfsflokkinn og einstaka ráðherra hans geta rætt saman, síðan sé spurning hvað flokkarnir nái saman um. „Ég hef ekkert á móti því og lýsti því yfir á þessum fundi að mér fyndist alveg ástæða til að skoða hvort hægt sé að setja einhverjar frekari skorður við einkavæðingu á auðlindunum og eignaraðild og nýtingu útlendinga, en það verða þá að vera málefnaleg sjónarmið sem ráða ferðinni,“ sagði Jóhanna. Hins vegar yrði erfitt að gera þetta til að vinda ofan af Magma-málinu. „Menn hafa verið að skoða það inn í framtíðina. Menn hafa verið að skoða hvort hægt sé að setja skorður að því er varðar forkaupsrétt að því er varðar Magma-málið og fleiri þætti sem að því snúa. Að nýtingin sé ekki til svona langs tíma, eins og í upphafi var sett. Þetta gæti haft áhrif á það.“ onundur@mbl.is