Hera Björk Á sviði í kvöld.
Hera Björk Á sviði í kvöld. — Morgunblaðið/Eggert
Hver sá Íslendingur sem horft hefur á Evróvisjón undanfarin ár og hlustað á íslenskan kynni lýsa keppendum og keppninni, hefur áttað sig á því að Austur-Evrópuþjóðir eru nokkuð sérstakt fyrirbæri.

Hver sá Íslendingur sem horft hefur á Evróvisjón undanfarin ár og hlustað á íslenskan kynni lýsa keppendum og keppninni, hefur áttað sig á því að Austur-Evrópuþjóðir eru nokkuð sérstakt fyrirbæri. Sagt er að þær rotti sig saman og kjósi hver aðra og séu þannig að ræna keppninni frá heiðarlegum og vel upplýstum menningarþjóðum, eins og Norðurlandaþjóðunum.

Norðurlandaþjóðirnar gefa hver annarri að vísu fjölda stiga ár hvert, alveg óháð því hversu góð lög viðkomandi þjóða eru, og það er alltaf talið fullkomlega eðlilegur vinagreiði. Norræn samvinna er víst svo göfug að hún á alls staðar heima, líka í evrópskri söngvakeppni. Ekki þarf til dæmis mikið hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að Íslendingar muni gefa Dönum 12 stig í ár og móðgast ógurlega launi Dani ekki fyrir sig með álíka mörgum stigum til Íslands.

Vonandi mun íslenskur kynnir í ár stilla sig um að segja okkur ítrekað frá illu innræti hinna svikulu Austur-Evrópuþjóða sem ætli sér að sigra í Evróvisjón. Þetta er orðið margþreytt tal sem enginn sómi er að. Mættum við fá eitthvað betra og uppbyggilegra að heyra þetta árið.

Kolbrún Bergþórsdóttir