Lotta Sýnir leikrit um Hans klaufa.
Lotta Sýnir leikrit um Hans klaufa.
Leikhópurinn Lotta frumsýnir fjölskylduleiksýninguna Hans klaufa í Elliðaárdalnum í dag kl. 16. Verkið skrifaði Snæbjörn Ragnarsson en auk Hans klaufa koma við sögu aðrar þekktar persónur úr ævintýraheiminum, t.d. Öskubuska og froskaprinsinn.

Leikhópurinn Lotta frumsýnir fjölskylduleiksýninguna Hans klaufa í Elliðaárdalnum í dag kl. 16.

Verkið skrifaði Snæbjörn Ragnarsson en auk Hans klaufa koma við sögu aðrar þekktar persónur úr ævintýraheiminum, t.d. Öskubuska og froskaprinsinn. Verkið segir frá því þegar Aron prins og aðstoðarmaður hans, Hans klaufi, koma heim úr löngu ferðalagi. Þegar heim kemur komast þeir að því að ekki er allt með felldu. Norn hefur komið þangað í fjarveru þeirra, lagt álög á kóngsríkið og svæft alla þegna þess og til að bæta gráu ofan á svart breytir hún Aroni prinsi í frosk. Nú eru góð ráð dýr og er það undir Hans klaufa komið að aflétta álögunum og bjarga kóngsríkinu. Verst bara hvað hann er mikill klaufi.

Í framhaldi af frumsýningunni mun Leikhópurinn Lotta ferðast um landið með Hans klaufa. Sýndar verða tæplega 80 sýningar á fleiri en 50 stöðum um allt land. Þetta er fjórða sumarið sem leikhópurinn tekur sig til og setur upp barnasýningu utandyra.

Áhorfendum er bent á að klæða sig eftir veðri og taka með sér teppi til að sitja á. Eftir sýningu fá börnin að spjalla við persónurnar úr leikritinu og skoða alla leikmyndina. Miðaverð er 1.500 kr.

Nánari upplýsingar um sýningarplan má finna á heimasíðu hópsins www.leikhopurinnlotta.is og á síðu hópsins á facebook.