Kýló Unga fólkið í Reykjanesbæ leikur sér í kýló af kappi. Auk hollrar útiveru kostar ekki krónu að finna sér grænt svæði til leikja.
Kýló Unga fólkið í Reykjanesbæ leikur sér í kýló af kappi. Auk hollrar útiveru kostar ekki krónu að finna sér grænt svæði til leikja. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað á að gera í sumar? heitir bæklingur sem Reykjanesbær gaf út nýverið. Þar er að finna upplýsingar um hvað börnum og unglingum stendur til boða í sumar.

Hvað á að gera í sumar? heitir bæklingur sem Reykjanesbær gaf út nýverið. Þar er að finna upplýsingar um hvað börnum og unglingum stendur til boða í sumar. Hægt er að velja úr góðu úrvali leikja-, íþrótta- og menningarnámskeiða, s.s. víkinganámskeið, sundnámskeið, sportnámskeið íþróttafélaganna, dansnámskeið, listaskóla, sumarlestur, smíðavelli og grænmetisrækt. Í þessari flóru ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi og einhver námskeiðanna eru gjaldfrjáls.

Nýr vettvangur útiveru og leikja skapaðist í Reykjanesbæ fyrir skömmu þegar hreystivöllur var opnaður við hlið Vatnaveraldar. Völlurinn samsvarar hreystivelli Skólahreysti og er ekki síður markaðssettur fyrir foreldra en börn. Það gæti til að mynda verið besta fjölskylduskemmtun að kanna hreysti fjölskyldunnar áður en haldið er í sund einhvern góðviðrisdaginn.

Framlag Listasafns Reykjanesbæjar til Listahátíðar 2010 er sýningin Efnaskipti eða Metabolism, sem nú stendur yfir í Listasalnum. Sýningin er samvinnuverkefni Listasafnsins og fimm myndlistarkvenna, þeirra Önnu Líndal, Guðrúnar Gunnarsdóttur, Hildar Bjarnadóttur, Hrafnhildar Arnardóttur og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur. Sýningin var opnuð 16. maí og stendur til 15. ágúst.

Í Bíósalnum er annars konar framlag til Listahátíðar, ljósmyndir sem teknar voru af grunnskólabörnum í Reykjanesbæ í tilefni Barnahátíðar í apríl sl. 113 börn sendu inn 3 ljósmyndir hvert af jafnmörgum viðfangsefnum og eru myndirnar allar á sýningunni. Sérstök athygli er vakin á verðlaunaljósmyndum 8 ljósmyndara.

Fjöldi listgallería hefur sprottið upp í miðbæ Reykjanesbæjar að undanförnu. Í Gallery 8 eru til sölu verk eftir jafnmargar lista- og handverkskonur, sem allar eru að vinna með ólík efni. Magdalena Sirrý design er hægt að skoða og versla í Gömlu búð í Fishershúsi og í sama húsi bakatil er nú vinnustofa og gallerí tveggja listakvenna, Írisar Jónsdóttur og Ingunnar Yngvadóttur.

Nýtt leikhús er einnig risið í Reykjanesbæ þó það sé vissulega ekki með hefðbundnu sniði. Víkingaskipið Íslendingur varð feðgunum Einari Benediktssyni og Pétri Einarssyni innblástur í flutning leikverka á borð við Ferðir Guðríðar. Þar bregður Þórunn Erna Clausen sér í hlutverk Guðríðar Þorbjarnardóttur í leikgerð Brynju Benediktsdóttur og segir frá ferðum Guðríðar vestur um haf. Um 70 manns rúmast um borð í bátnum og einkar viðeigandi að upplifa ferðasögu Guðríðar með þessum hætti.