— Morgunblaðið/Golli
Þegar kemur að Evróvisjón eru fáir jafn vel skólaðir í fræðunum og Páll Óskar Hjálmtýsson. Ástríðan þar er sönn, áhuginn endalaus og gleðin í garð alls þess sem snertir þessa vinsælu keppni fölskvalaus. Yfir til þín Páll...

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir

moheidur@gmail.com

MMMM... aaaaaa“ heyrist í poppgoðinu Páli Óskari þar sem hann teigar besta kaffisopa bæjarins á Kaffismiðjunni. Sæluhljóðið fer ekki framhjá neinum. Umræðuefni þessa stefnumóts stendur Páli Óskari nærri því hann er orðinn okkar helsti sérfræðingur í þessum stórkostlega menningarviðburði sem við köllum Evróvisjón. Bjarteygur og brosandi hallar hann sér aftur í þægilegum stólnum og segir: „Ókei, skjóttu...“

– Allt í lagi. Höfum þetta einfalt svona í blábyrjun. Af hverju í ósköpunum elskar Páll Óskar Evróvisjón svona mikið?

„Þetta er margþætt áhugamál, í fyrsta lagi ef þú hefur einhvern áhuga á tónlist þá er hægt að finna gull og gersemar þarna í miðjum skítnum en 95% af þessum lögum eru algert drasl. Þetta er skúffulagakeppni fyrir „wannabe“-lagahöfunda sem finna kannski einu lagi farveg inn í þessa keppni. Fæstir ná að búa til feril úr þessu, oft er verið að herma eftir stefnum og straumum hvers tíma. Þannig að ef þú ert duglegur, nennir að hlusta á forkeppnirnar og allt sem fylgir þessu þá finnurðu gullið. Þú þarft að vera nörd, eins og þessir sem fara í safnarabúðina til þess að heyra hið eina sanna lag,“ segir Páll Óskar, svo gott sem í einni bunu.

Hin fallega hugsjón

– En hver er hugsjónin á bak við Evróvisjón?

„Veistu...“ segir Páll, skakar sér í sætinu og setur sig í kennarastellingar. „Hugsjónin á bak við keppnina er mjög falleg. Vissirðu það að hugmyndin kom upp hjá manni að nafni Marcel Besancon frá Sviss, sá réð þá yfir EBU eða European Broadcast Union. Fyrsta keppnin var því haldin í Sviss og gettu hver vann, Sviss... þvílík tilviljun. Þegar keppnin byrjaði var Evrópa enn í sárum eftir seinni heimsstyrjöldina, allir hötuðu Þjóðverja, Þjóðverjar hötuðu Breta og Frakkar létu Breta fara í taugarnar á sér. Evrópa var í rúst. Honum datt því í hug að búa til einn atburð – eina útsendingu í beinni sem allir gætu horft á samtímis. Vegna þess að hann trúði því að tónlist væri eina tungumálið sem allir gætu tengt við og skilið. Tónlistarkeppni væri því vettvangur fyrir þjóðirnar að mætast á vinalegum grundvelli.“

– Er grundvöllurinn enn vinalegur eða hvað finnst þér?

„Auðvitað eru ákveðnar þjóðir sem skiptast á stigum, ákveðin pólitík. En vinalegi grundvöllurinn hefur haldist að mínu áliti þannig að góðu lögin komast alltaf áfram, burtséð frá því hvaðan þau koma.“

Nokkur hundleiðinleg lög í keppni

– En nú í ár, hvernig á okkur eftir að ganga? Er ekki erfitt að koma á eftir Jóhönnu og eldgosi sem er búið að gera flestar Evrópuþjóðir brjálaðar?

„Það er búið að semja yfir 5.000 fréttir á enskri tungu um Eyjafjallajökul, það hjálpar bara. En svo veit ég bara að Hera Björk á eftir að massa þetta,“ segir Páll Óskar. Sannfæringarkrafturinn er slíkur að blaðakonan tekur þetta sem heilagan Evróvisjónsannleik.

„Auðvitað er alltaf pólitík alls staðar,“ heldur hann áfram. „Austantjalds eða á Norðurlöndum en það eru alltaf tvö til fjögur góð lög sem komast í efstu sætin.“

– Tónlistin sigrar pólitíkina eins og ætlunin var kannski til að byrja með?

„Já ég trúi því og það er nákvæmlega það sem er svo skemmtilegt og fallegt við þessa keppni. Bissnessmenn og bransalið hefur aldrei litið við þessari keppni, ekki séð neitt koma út úr þessu. En nú er það allt að breytast, sérstaklega eins og í fyrra þegar lög úr keppninni fóru að poppa upp á vinsældalistum víðsvegar um Evrópu en það er vegna þess að fólk er farið að kaupa lögin á iTunes. Það er nýjasta tæknibylting Evróvisjón. Í gamla daga þurfti að hafa mikið fyrir því að finna vínylplötur með þessum lögum, haldin voru þing fyrir nördana – svona eins og Star Trek-þingin – þar sem hægt var að nálgast þessar gersemar.“

Króatía tekur þetta

– En hvaða lag er sigurstranglegast að þínu mati í ár?

„Sko,“ segir sérfræðingurinn, japlandi á skonsu. „Músíklega séð er þetta ein lakasta keppnin í mörg ár – og ég er aðdáandi. Í fyrra var hún algert æði. Úrslitin í ár, ég skal lofa þér því að þau verða óvænt alveg eins og þegar Finnar unnu með skrímslarokki. Það verða einhver tvö, þrjú lög sem eiga eftir að taka fram úr og þetta verður spennandi.“

– En hver eru þín uppáhalds?

„Ef það er eitthvert réttlæti í heiminum vinnur Króatía (viðtalið var tekið áður en undankeppnirnar voru haldnar, Króatía datt út og verður ekki með í aðalkeppninni). Þetta eru þrjár nornir sem syngja lagið, ein dökkhærð, ein ljóshærð og ein rauðhærð eins og nornirnar frá Eastwick. Þetta er einfaldlega góð lagasmíð. Svo fíla ég lagið frá Rúmeníu, svona diskólag, en á ekkert endilega von á því að það fari eitthvað. Annars er enginn af vinum mínum sammála mér um hvað eigi eftir að vinna,“ segir þáttastjórnandinn ákveðinn og með allt á hreinu.

„Það má ekki gleyma því að flestir þeir sem taka þátt í Evróvisjón borga með sér þannig að ef þessi góðu lög komast áfram og þau verða keypt þýðir það að lagahöfundarnir fá kannski eitthvað út úr þessu. Enginn hefur fjármagn til þess að vera með sérhannaða skriðdreka eða sprengingar á sviðinu. Þannig að keppendur borga langflestir með sér fyrir þessar þrjár mínútur.“

Bátnum ruggað

– En hvað með þig? Ætlar þú að taka þátt með laginu sem hann Jónsi er búinn að semja fyrir þig?

„Jónsi úr Sigur Rós? Já ég þyrfti að heyra það. En það bregst ekki að á hverju ári kemur einhver til mín með Evróvisjónlag.“

– Það vilja sem sagt allir að þú verðir aftur með, en hvað með þig?

„Já margir og það er yndislegt,“ segir Páll með auðmýkt. „Og mig langar til þess þegar rétta lagið kemur. Vegna þess að „Minn hinsti dans“ varð að fara á sínum tíma. Það þurfti að rugga bátnum, keppnin var pikkföst og það þurfti að endurskoða allt. Í dag myndi ég fara með keppnislag, gott og vel uppbyggt lag eins og t.d. lagið sem píurnar frá Króatíu eru með (en komust ekki áfram með, innsk. blm.). Það er einfaldlega það sem ég er að leita að og ég þykist vita hvenær ég er með hittara í höndum og hvenær ekki!“

Spáin er góð

– En svona að lokum, Evróvisjónkvöldið þitt á Nasa?

„Ef þú hefur ekki komið í Evróvisjónpartíið mitt þá hefurðu ekki lifað! Ég þeyti skífum, spila bara Evróvisjónlög, gömul og ný, og segi eiginlega söguna með tónlistinni. Hápunktur kvöldsins er svo þegar ég treð upp,“ segir Evróvisjónkóngurinn kinnroðalaust, svona eins og hann sé að lesa upp veðurspána.

SPÁMAÐURINN PÁLL ÓSKAR HJÁLMTÝSSON

Fáum smá Selmu-móment

„Hera heldur gjörsamlega fókus á efsta sætið og ég hef fulla trú á henni, hún er kandídat í sigurvegara,“ segir Páll Óskar vongóður um gengi Heru Bjarkar í kvöld. Úrslitin í seinni riðlinum komu mörgum á óvart og segir Palli að keppendurnir hafi virst stressaðir; „Hann var einhvern veginn allur flatur, það voru alltof mörg lög sem klúðruðust á meðan lögin á þriðjudeginum voru betur flutt. Mér fannst leiðinlegt að Króatía komst ekki áfram og ég græt yfir Hollandi.“ Aðspurður hvort hann telji Aserbaídsjan sigurstranglegt segir hann þá ekki vera að gera neinar rósir þrátt fyrir spár veðbankanna. Uppáhaldslag Palla er aftur á móti frá Rúmeníu; „Mér þykir voða vænt um Rúmeníu og er mjög glaður að hún komst áfram. Þetta er diskólag af gamla skólanum og það kveikir alveg í mér.“ Palli er ekki þekktur fyrir að spara stóru orðin en hann býst við stórri stund í kvöld; „Þau uppskera eins og þau hafa sáð. Liðið argar og gargar og öskrar í salnum þegar Ísland er kynnt, það klappar með laginu allan tímann og bilast svo þegar lagið er búið. Við verðum í topp fimm ásamt Ísrael, Þýskalandi, Grikklandi og Danmörku. Mig grunar að Hera vinni þetta, við fáum allavega smá Selmu-móment“. hugrun@mbl.is

EVRÓVISJÓNPARTÍIÐ

Dj Páll Óskar

Páll Óskar heldur árlegt Evróvisjónpartí sitt á Nasa í kvöld. Húsið verður opnað á miðnætti og dj Páll Óskar verður við spilarann allan tímann til 5.30 á sunnudagsmorgun og spilar öll helstu evóvisjónlög sögunnar, bæði gömul og ný, ásamt klassískum partísmellum. Evróvisjónhetjur Íslendingar stíga síðan á svið og taka lagið. Páll Óskar tekur öll sín bestu lög og einnig koma fram Sigga Beinteins, Sigrún Eva, Jógvan og Jóhanna Guðrún.