Úrslit ráðast í Evróvisjón í kvöld. Einhverra hluta vegna telur Pétur Stefánsson að Noregur vinni aftur og yrkir: Hún eflaust hlýtur allmörg stig, um það fáir þrátta. Hera Björk mun syngja sig í sæti númer 8.

Úrslit ráðast í Evróvisjón í kvöld. Einhverra hluta vegna telur Pétur Stefánsson að Noregur vinni aftur og yrkir:

Hún eflaust hlýtur allmörg stig,

um það fáir þrátta.

Hera Björk mun syngja sig

í sæti númer 8.

Sigrún Haraldsdóttir er á öðru máli:

Sú er ekki í máli myrk,

mörkuð sjarma og heppni,

vopnuð ríkum viljastyrk

vinnur hún þessa keppni.

Ingólfur Ómar Ármannsson veltir fyrir sér kosningunum, sem fram fara í dag:

Valið okkur veltur á

vanda til þess megum;

Besta flokknum bægjum frá

því betra skilið eigum.

Davíð Hjálmar Haraldsson orti til starfsmanna í Ráðhúsinu á Akureyri í aðdraganda kosninga, en þá bjóst hann við heimsóknum:

Ótíndan flokk ég ekki kýs,

aldrei er þó að vita

ef ég af sméri fengi flís

og frauðmjúkan harðfiskbita.

Í framhaldi af því fóru frambjóðendur flokkanna að líta við í Ráðhúsinu. Honum varð að orði:

Framsóknar kom hér flokkur krankur,

flæktist um húsið, ekki gaf

verðmæti nein og virtist blankur,

veifandi grænum betlistaf.

Ljúf kom hún inn og laus við hroka,

leggja kvaðst öll sín verk í dóm;

Samfylking gaf mér sætt í poka.

Sárþjáð er tönn í efri góm.

Kom hér og bað um stuðning stóran

og styrki því nú er knappt um fé;

E-töflur gaf mér íhalds kjóran,

óvart þó hefði merkt með D.

„En enn er von,“ bætti Davíð Hjálmar við:

Lífið er eins og lækjarspræna,

löngum það færir mat á disk.

Vantar enn Odd og Vinstri græna,

von lifir því um smér og fisk.

Magnús Sigurbjörnsson á Akureyri orti í kjörklefanum:

Enn er talan okkar lág

ekki er því að hrósa.

Ætti að hýða alla þá

sem ekki vilja kjósa?