Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Búast má við að fyrstu tölur í öllum stærstu sveitarfélögum landsins liggi fyrir rétt eftir að kjörstöðum verður lokað klukkan 10 í kvöld.

Rúnar Pálmason runarp@mbl.is

Búast má við að fyrstu tölur í öllum stærstu sveitarfélögum landsins liggi fyrir rétt eftir að kjörstöðum verður lokað klukkan 10 í kvöld. Í Reykjavík verða talningarmenn lokaðir inni í borgarstjórnarsalnum í Ráðhúsinu um klukkan hálfsjö og salurinn innsiglaður á meðan atkvæði verða flokkuð og talin.

Reykjavík er langstærsta sveitarfélagið með rúmlega 85.000 manns á kjörskrá og því ærið verkefni sem bíður talningarmanna. „En þetta er öflugt lið sem vinnur þetta verk,“ segir Ólafur Kr. Hjörleifsson, skrifstofustjóri borgarstjórnar, sem hefur yfirumsjón með undirbúningi borgarinnar fyrir kosningarnar. Verkið felist í því að flokka, yfirfara og telja atkvæðin, jafnt auða kjörseðla sem aðra sem upp úr kössunum koma.

Sömu 13 kjörstaðir í Reykjavík

Kjörstaðir í Reykjavík eru 13, þeir sömu og í atkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin og alþingiskosningarnar 2009. Hafi menn ekki flutt í millitíðinni, þá kjósa þeir á sama stað og síðast. Á kjörskrá eiga að vera allir íslenskir ríkisborgarar sem skráðir voru með lögheimili í ákveðnu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 8. maí 2010, og eru 18 ára eða eldri á kjördag.

Einnig hafa danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem lögheimili hafa átt á Íslandi í þrjú ár samfellt frá 29. maí 2007 kosningarétt, séu þeir orðnir 18 ára á kjördag. Ennfremur skulu vera á kjörskrá aðrir erlendir ríkisborgarar sem lögheimili hafa átt á Íslandi í fimm ár samfellt frá 29. maí 2005 enda séu þeir 18 ára eða eldri í dag. Þá eiga kosningarétt þeir íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem flutt hafa lögheimili sitt frá Íslandi til hinna Norðurlandanna samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu. Þetta á fyrst og fremst við um námsmenn.

  • Talningarmennirnir verða lokaðir inni í borgarstjórnarsalnum og hann innsiglaður.