Geir Sveinsson
Geir Sveinsson
Eftir Geir Sveinsson: "Í dag kjósa íbúar Reykjavíkur þá sem þeir treysta best til að halda vel utan um stjórnun og rekstur borgarinnar næstu fjögur árin."

Í dag kjósa íbúar Reykjavíkur þá sem þeir treysta best til að halda vel utan um stjórnun og rekstur borgarinnar næstu fjögur árin.

Eitt það mikilvægasta sem við stöndum frammi fyrir eru málefni fjölskyldna okkar, eldri borgara og þeirra sem minna mega sín. Það er því gríðarlega mikilvægt að vel sé haldið utan um þessa málaflokka sem snerta okkur öll. Ég tel að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi haldið vel á þessum málum. En það má alltaf gera betur og hefur borgarstjórnarflokkurinn sett fram skýra stefnu sem ég hvet þig til að kynna þér á xd.is/reykjavik/malefnin. Jafnframt getur þú kynnt þér á sama stað hvað áunnist hefur í málaflokknum á síðasta kjörtímabili.

Sömuleiðis þarf að huga að vandamálum þeirra sem eru án atvinnu en hlutfall atvinnulausra hér í Reykjavík er allt of hátt og úr því þarf að bæta.

Núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur nú þegar ákveðið að setja 26 milljarða til atvinnuuppbyggingar í Reykjavík næstu misserin.

En lykillinn að þessu öllu saman er styrk og örugg stjórn fjármála hér í borg og var grunnurinn lagður að henni þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórninni í Reykjavík fyrir 4 árum. Borgin okkar stendur því í dag styrkum fótum mitt í þessum efnahagslega ólgusjó og það er árangur sem er langt í frá sjálfsagður á þessum viðsjárverðu tímum. Það er því mikilvægt að kjósendur geri sér vel grein fyrir að stjórnun fjármála borgarinnar er ekkert grín því að um gríðarlegar upphæðir er að ræða og algjör grunnforsenda þess að hér geti þrifist öflugt grunn- og velferðarkerfi íbúum borgarinnar til heilla. Þetta er ein af stóru ástæðum þess að ég ákvað að vinna með Sjálfstæðisflokknum og mig langar til að hvetja þig kjósandi góður til að styðja okkur til áframhaldandi góðra verka næstu fjögur ár.

Höfundur skipar 6.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins til borgastjórnarkosninga.