<strong>Dúx</strong> Ásbjörg Einarsdóttir segist vinna vel undir álagi.
Dúx Ásbjörg Einarsdóttir segist vinna vel undir álagi.
„Ég hef lagt mikið á mig, en lykillinn að þessu er að skipuleggja sig vel. Ég held að ég vinni best undir álagi, það er góður eiginleiki,“ segir Ásbjörg Einarsdóttir, dúxinn í Menntaskólanum í Reykjavík í ár. Hún fékk ágætiseinkunn, 9,59.

„Ég hef lagt mikið á mig, en lykillinn að þessu er að skipuleggja sig vel. Ég held að ég vinni best undir álagi, það er góður eiginleiki,“ segir Ásbjörg Einarsdóttir, dúxinn í Menntaskólanum í Reykjavík í ár. Hún fékk ágætiseinkunn, 9,59.

Ásbjörg var í hópi 202 stúdenta sem brautskráðir voru frá MR í gær. Þrettán þeirra fengu ágætiseinkunn. Semidúx árgangsins var Halldís Thoroddsen, með 9,48.

„Ég hef alltaf verið dálítill nörd,“ segir Ásbjörg þegar hún var spurð að því hvort hún hefði stefnt lengi að þessu en vekur um leið athygli á því að margir hafi staðið sig vel og náð háum einkunnum.

Dúxinn safnaði að sér verðlaunum, auk þeirra sem fylgja hæstu einkunn, fyrir stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Hún fékk einnig viðurkenningu fyrir vel unnin störf sem fulltrúi nemenda í skólaráði í vetur. Ásbjörg hefur verið virk í félagslífinu síðustu þrjá vetur, var meðal annars ritari skólafélagsins í fyrravetur. „Mér finnst skemmtilegt að hafa nóg að gera. Í fyrra náði ég varla að komast heim í kvöldmat,“ segir hún.

Áhuginn einskorðast ekki við raungreinarnar en Ásbjörg viðurkennir að þar liggi hæfileikarnir. Hún segist hafa alveg eins mikinn áhuga á að fara í frönsku í háskólanum eins og hvað annað. Hún viðurkennir að læknisstarfið heilli en tekur fram að hún sé ekki spennt fyrir læknisnáminu. En ákvörðun um framtíðina bíður því Ásbjörg ætlar að vinna fram að áramótum og fara þá í heimsreisu með fjórum vinkonum sínum. „Við ákváðum þetta þegar við vorum fimmtán ára,“ segir hún. helgi@mbl.is