29. maí 1955 Norsk kona ól stúlkubarn í Heklu, flugvél Loftleiða, á leiðinni frá Nýfundnalandi til Íslands. Var þetta talið fyrsta barn sem fæðst hafði í íslenskri flugvél. Barnið var síðar skírt Hekla. 29.

29. maí 1955

Norsk kona ól stúlkubarn í Heklu, flugvél Loftleiða, á leiðinni frá Nýfundnalandi til Íslands. Var þetta talið fyrsta barn sem fæðst hafði í íslenskri flugvél. Barnið var síðar skírt Hekla.

29. maí 1999

Lagið „All out of luck“ náði öðru sæti í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva, hlaut 146 stig, sautján stigum færra en sigurlagið. Lagið er eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson og var flutt af Selmu Björnsdóttur. Þetta var besti árangur Íslendinga í keppninni.

29. maí 2008

Suðurlandsskjálfti sem mældist 6,3 stig varð kl. 15.46. Upptökin voru skammt austan við Hveragerði. Víða varð tjón á byggingum og innanstokksmunum. Margir slösuðust en enginn alvarlega. Tjónið hefur verið áætlað um fimm milljarðar króna.

29. maí 2009

Jarðskjálfti varð í nágrenni Grindavíkur kl. 21.33. Hann var 4,7 stig. Margir skjálftar fylgdu í kjölfarið, sá stærsti var 4,3 stig. Skjálftarnir fundust vel á höfuðborgarsvæðinu.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.