Í öskunni Íbúar á öskufallssvæðinu eru orðnir þreyttir á ástandinu.
Í öskunni Íbúar á öskufallssvæðinu eru orðnir þreyttir á ástandinu. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Fólk er með hósta og óþægindi í öndunarfærum. Við ætlum að athuga hvort askan hafi víðtækari áhrif á heilsuna,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Fólk er með hósta og óþægindi í öndunarfærum. Við ætlum að athuga hvort askan hafi víðtækari áhrif á heilsuna,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. Eftir helgi hefst rannsókn á heilsufarslegum afleiðingum ösku og annarra efna frá eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Rannsóknin er unnin í samvinnu við sóttvarnalækna og heilbrigðisstarfsmenn á Suðurlandi, lækna og hjúkrunarfræðinga lungnadeildar Landspítala og fleiri. Lungnalæknar og hjúkrunarfræðingar fara heim til fólks, einkum á svæðinu frá Eyjafjöllum og í Vík, en einnig fyrir austan Mýrdalssand ef tími vinnst til. Fólki verður boðið upp á almenna læknisskoðun, spurt eftir einkennum og öndunarstarfsemin sérstaklega athuguð.

„Markmiðið er að meta hugsanleg bráð heilsufarsleg áhrif gjóskunnar, gildi sóttvarnaráðstafana sem beitt hefur verið og hvort grípa þurfi til frekari ráðstafana. Einnig er áætlað að meta langtímaáhrif öskufalls á heilsufar,“ segir í tilkynningu sóttvarnalæknis. Haraldur Briem segir að ekki hafi verið talið að langtímaáhrif öskunnar séu mikil á heilsu fólks. „Askan er hins vegar mismunandi að gerð og nauðsynlegt fyrir okkur að fá frekari vitneskju um áhrif þeirrar ösku sem þarna hefur fallið,“ segir Haraldur.

Reiknað er með að rannsóknin standi yfir alla næstu viku og jafnvel þarnæstu ef þörf verður á.

Öskufjúk á söndunum

Mikið öskufok var síðdegis í gær á Hringveginum á Sólheimasandi og Skógasandi. Lögreglumaður sem átti þarna leið um sagði að öskufok hefði verið frá Pétursey að Skógum. Á söndunum var á köflum dimmt. Ekki var að sjá að aska fyki í byggð.

Í gærmorgun sást á gervihnattamyndum að aska var í lofti yfir Reykjanesskaga og suðvestur af landinu, að því er fram kom í minnisblaði jarðvísindamanna um stöðu eldgossins.

MIKIL HVERAVIRKNI Í EYJAFJALLAJÖKLI

Enn heyrist hvæs úr gígunum

Einstaka smáar sprengingar eru enn í gígum Eyjafjallajökuls. Miklir gufumekkir standa upp úr þeim. Þeir náðu upp í 2,8 km yfir sjávarmáli í fyrrakvöld.

Vísindamenn Jarðvísindastofnunar sem gengu á barma austurgíga í fyrradag sáu ekki niður á botn gíganna vegna gufu. Þeir heyrðu hins vegar hvæs í gígunum sem þeir segja að bendi til mikillar hveravirkni og gasmyndunar. Megn brennisteinsfýla var á gígbörmunum. Gígbarmarnir eru huldir fínni gjósku, nýrri, sem þó nær ekki nema 20 metra inn á barmana.

Enn mælast jarðskjálftar undir eldfjallinu. Þá hefur gosórói verið svipaður alla vikuna.