Gunnar Einarsson
Gunnar Einarsson
Eftir Gunnar Einarsson: "Það er hátíðisdagur þegar þjóðin fær að ganga til kosninga og velja þá sem hún treystir best til að fara með stjórnun síns sveitarfélags. Í Garðabæ er valið einfalt."

Það er hátíðisdagur þegar þjóðin fær að ganga til kosninga og velja þá sem hún treystir best til að fara með stjórnun síns sveitarfélags. Í Garðabæ er valið einfalt. Þar er fjárhagsstaðan traust enda hefur ríkjandi meirihluti Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin sýnt aðhaldssemi í fjármálum og forðast óhóflegar lántökur.

Á sama tíma hafa bæjarfulltrúar flokksins sýnt framsýni og metnað, sem birtist m.a. í metnaðarfullu starfi leik- og grunnskóla og Tónlistarskóla Garðabæjar. Gott orðspor skólastarfs í Garðabæ hefur m.a. orðið til þess að margar ungar fjölskyldur hafa flutt í bæinn okkar á undanförnum árum og að íbúum Garðabæjar hefur fjölgað meira en víða annars staðar.

Íþróttamálin skipta þar líka máli en óhætt er að segja að umgjörð íþróttastarfs í Garðabæ sé afar góð eftir öfluga uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Glæsilegt fimleikahús er nýjasta viðbótin í þeirri flóru.

Við Garðbæingar erum svo lánsamir að eiga margar ómetanlegar náttúruperlur innan bæjarlandsins. Núverandi meirihluti hefur lagt þunga áherslu á umhverfismál og náttúruvernd og hefur nú þegar tryggt íbúum höfuðborgarsvæðisins í nútíð og framtíð víðfeðm útivistarsvæði með friðlýsingum stórra landsvæða.

Sem yfirmaður stjórnsýslu Garðabæjar er fagmennska, gagnsæi og virk upplýsingamiðlun mitt leiðarljós og hefur verið í gegnum árin. Ég vil hvetja Garðbæinga til að láta ekki blekkjast af yfirboðum heldur kynna sér vel fjárhagsstöðu og starfsemi bæjarins en það er m.a. hægt að gera í ársskýrslu fyrir árið 2009 sem var að venju dreift inn á öll heimili í Garðabæ.

Ríkjandi meirihluti í Garðabæ hefur sýnt og sannað að hann er traustsins verður og því er ég reiðubúinn að starfa áfram með honum fái hann umboð til þess. Í könnunum Capacent mælist ánægja íbúa meiri í Garðabæ en í nokkru öðru sveitarfélagi á Íslandi sem segir mér að við erum á réttri braut og að bæjarbúar vilja áframhaldandi stöðugleika og metnað undir traustri forystu Sjálfstæðisflokksins.

Höfundur er bæjarstjóri í Garðabæ.