Þorgerður Anna Arnardóttir
Þorgerður Anna Arnardóttir
Eftir Þorgerði Önnu Arnardóttur: "Það þarf áræði, kjark og þor til að feta nýjar leiðir í skólamálum. Þar hafa bæjaryfirvöld í Garðabæ verið í forystu. Garðaskóli hefur t.d."

Það þarf áræði, kjark og þor til að feta nýjar leiðir í skólamálum. Þar hafa bæjaryfirvöld í Garðabæ verið í forystu. Garðaskóli hefur t.d. verið meðal fremstu skóla á unglingastigi og nú er Sjálandsskóli að feta sig yfir á unglingastigið með ólíkar áherslur. Í flóru yngri barna skólanna hafa Sjálandsskóli og Barnaskóli Hjallastefnunnar komið með nýjar og árangursríkar áherslur. Sveitarfélag sem þorir að bjóða upp á ólíka skóla og ólík rekstrarform á hrós skilið. Barnaskóli Hjallastefnunnar lýkur nú sínu 7. ári sem skóli á yngsta grunnskólastigi. Í vetur óskuðu foreldrar barna í 4. bekk eindregið eftir miðstigi við skólann. Var erindi sent bæjaryfirvöldum sem, þrátt fyrir þrengingar í samfélaginu settu líðan barnanna og vilja foreldra í forgang og samþykktu. Enda er það svo í Garðabæ að fé fylgir barni og því er valið raunverulegt og ekki háð stétt eða stöðu.

Metnaðarfullt og framsækið skólastarf er einn af hornsteinum framtíðarinnar. Það eru lífsgæði fyrir foreldra sem setja velferð barna sinna í forgang að fá að velja þeim kennsluleiðir og skólasamfélag. Undanfarin misseri hefur metnaðarfull skólastefna bæjarins verið forsenda stöðugrar þróunar í öllum skólum bæjarins. Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa verið í forystu um frjálst val barna og foreldra um skóla og þetta frjálsa val hefur aukið á metnað og gæði í starfi allra skóla í sveitarfélaginu.

Ég hef sjálf notið þessa, sem skólabarn í Garðabæ, sem foreldri barna í fjórum skólum bæjarins, sem kennari og deildarstjóri í Hofstaðaskóla og sem skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar.

Í Barnaskólanum starfa öflugir einstaklingar við að byggja upp sjálfstæða einstaklinga. Við óhefðbundnar aðstæður, dásamlega náttúru og sterka liðsheild foreldra, barna og starfsfólks sannast það að gott skólastarf er þar sem hjartað slær í takt. Garðbæingar, til hamingju með glæsilegan skólabæ. Stöndum vörð um velferð barnanna okkar og setjum X við áframhaldandi víðsýni, vandvirkni og öflugt skólastarf í Garðabæ.

Höfundur er skólastjóri Barnaskóla Hjallastefnunnar, Garðabæ.

Höf.: Þorgerði Önnu Arnardóttur