Halldór Blöndal
Halldór Blöndal
Eftir Halldór Blöndal: "Sveitarstjórnarkosningarnar eru mikilvægari en nokkurn tíma fyrr. Síðustu misserin hafa verið erfið vegna hruns bankanna og engin forysta í málefnum ríkisins, með hræðilegum afleiðingum fyrir unga sem gamla."

Sveitarstjórnarkosningarnar eru mikilvægari en nokkurn tíma fyrr. Síðustu misserin hafa verið erfið vegna hruns bankanna og engin forysta í málefnum ríkisins, með hræðilegum afleiðingum fyrir unga sem gamla. Þetta hefur ruglað menn í ríminu, þannig að umræður um sveitarstjórnarmál hafa þokað fyrir öðru í aðdraganda kosninganna.

Það er tilhneiging til að segja, að allir gömlu flokkarnir séu eins. Það er hugsunarvilla. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið sérstöðu sinni í gegnum árin. Hann er andstæða fjórflokksins eða R-listans og höfðar til gamalla gilda, vill heiðarleik og orðheldni. Það eru dyggðir sem ekkert kosta. Sjálfstæðisflokkurinn er opinn flokkur með skýr markmið og nær til grasrótarinnar. Þess vegna hefur hann endurnýjað sig í breyttum tíma.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá öndverðu haft forystu í sveitarstjórnarmálum. Hann hefur lagt áherslu á aðgæslu og aðhald í útgjöldum. Það hefur gert kleift að hafa skatta í lágmarki en vera þó í forystu fyrir margvíslegum félagslegum umbótum, sem varða fjölskylduna, aldraða og öryrkja. Nú síðast á miðvikudag var enn eitt stórátakið kynnt. Í samvinnu við Hrafnistu stendur Reykjavíkurborg fyrir byggingu 100 þjónustu- og öryggisíbúða. Svipaða sögu má segja af framtaki sjálfstæðismanna í öðrum sveitarfélögum vítt og breitt um landið.

Á síðustu misserum hefur mjög hert að öldruðum og öryrkjum og margt vígi fallið, sem pólitísk átök þurfti til að ná. Það er okkur áminning um að baráttan heldur áfram og getur aldrei unnist í eitt skipti fyrir öll. Stöndum því saman að sigri Sjálfstæðisflokksins í dag.

Höfundur er formaður Sambands eldri sjálfstæðismanna.

Höf.: Halldór Blöndal