[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Pálmason runarp@mbl.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Tekjur sveitarstjórnar Álftaness nægja ekki til að standa straum af afborgunum lána, hvað þá af leigugreiðslum, einkum vegna sundlaugar og íþróttahúss, þrátt fyrir að sett hafi verið 10% álag á útsvar og fasteignaskattur hækkaður. Til að „einhver afgangur“ myndist frá rekstri þarf álagið á útsvarið og fasteignaskattinn að standa að minnsta kosti fram yfir árið 2015.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í drögum að greinargerð með áætlun fjárhaldsstjórnar fyrir árin 2011-2015 sem lögð voru fram á bæjarstjórnarfundi í fyrradag.

Eftir að Álftanes varð greiðsluþrota fékk sveitastjórnin endurskoðunarfyrirtækið KPMG til að gera áætlun um rekstur sveitarfélagsins. Fjárhaldsstjórnin hefur nú endurskoðað áætlunina.

Samkvæmt endurskoðuninni aukast tekjur á milli ára en jafnframt er gert ráð fyrir að lán og launatengd gjöld lækki á árinu 2011 um 37 milljónir frá áætlun KPMG, um 9,2 milljónir á árinu 2012. Þá er gert ráð fyrir að önnur útgjöld lækki um 36 milljónir frá því sem áætlun KPMG gerir ráð fyrir. Þannig náist afgangur af rekstri, fyrir fjármagnsliði, upp á 306 milljónir árið 2013. Fjárhaldsstjórnin telur að hægt sé að ná þessum rekstrarbata án þess að skerða þurfi þjónustu, umfram það sem segir í skýrslu KPMG.

Yfirvinnuþak í næsta bæ

Fjárhaldsstjórnin vekur sérstaka athygli á háum yfirvinnugreiðslum hjá sveitarfélaginu en hefðu sömu reglur gilt á Álftanesi og hjá nágrannasveitarfélagi hefði mátt spara 26 milljónir, eingöngu við rekstur leikskóla árið 2008.

Hjá sveitarfélaginu hafi nokkuð verið um greiðslur umfram kjarasamninga, m.a. fyrir unna og óunna yfirvinnu. Sem dæmi um miklar yfirvinnugreiðslur er nefnt að greidd var yfirvinna ásamt launatengdum gjöldum vegna leikskóla í sveitarfélaginu fyrir 30,3 milljónir. Í nágrannasveitarfélagi Álftaness sé sú regla hins vegar viðhöfð að hver starfsmaður á leikskóla megi ekki vinna meira en sem nemur samtals 30 klukkustundum í yfirvinnu á ári. Hjá Álftanesi sjái þess á hinn bóginn merki að greiddar hafi verið fleiri yfirvinnustundir til einstakra starfsmanna í einum mánuði en sem þessu nemur. Ef þessi regla hefði gilt hjá sveitarfélaginu hefði yfirvinna ásamt launatengdum gjöldum verið um 4 milljónir á árinu 2008 en ekki 30,3 milljónir vegna leikskóla.

Helmingað við uppmælingu

Í báðum leikskólm sé greitt samtals 34,38 klukkustundir á dag fyrir ræstingu. Samkvæmt nýrri uppmælingu eigi hins vegar að greiða 16,45 klukkustundir á dag. Þannig sér verið að borga fyrir um tvöfalt fleiri tíma en uppmælingin segi til um. Hægt sé að nefna fleiri þannig dæmi.

HVAÐ UM REKSTURINN?

Áætlun finnst ekki

Bygging sundlaugar og endurbætur á íþróttahúsi hafa leikið fjárhag Álftaness grátt. Eitt er að reisa slík mannvirki, annað að reka þau. Morgunblaðið spurðist fyrir um þá rekstraráætlun sem lá fyrir þegar ákveðið var að ráðast í framkvæmdirnar.

Pálmi Þór Másson bæjarstjóri sagði í gær að við leit í skjalasafni bæjarins hafi slík rekstraráætlun ekki fundist.

Samkvæmt skýrslu KPMG nema núvirtar skuldbindinga vegna íþróttahúss og sundlaugar um þremur milljörðum.