Mannskætt skemmdarverk Indverskir hermenn og björgunarmenn bera slasaðan farþega úr hraðlest sem fór út af sporinu og skall á vöruflutningalest í Vestur-Bengal í fyrrakvöld. Þrettán vagnar hraðlestarinnar eyðilögðust í árekstrinum. Lestin var full af fólki á leið í sumarfrí.
Mannskætt skemmdarverk Indverskir hermenn og björgunarmenn bera slasaðan farþega úr hraðlest sem fór út af sporinu og skall á vöruflutningalest í Vestur-Bengal í fyrrakvöld. Þrettán vagnar hraðlestarinnar eyðilögðust í árekstrinum. Lestin var full af fólki á leið í sumarfrí. — Reuters
Að minnsta kosti áttatíu manns biðu bana þegar hraðlest fór út af sporinu og skall á vöruflutningalest á Indlandi í fyrrakvöld. Indversk yfirvöld sögðu að hraðlestin hefði farið út af sporinu vegna skemmdarverks maóista.

Að minnsta kosti áttatíu manns biðu bana þegar hraðlest fór út af sporinu og skall á vöruflutningalest á Indlandi í fyrrakvöld. Indversk yfirvöld sögðu að hraðlestin hefði farið út af sporinu vegna skemmdarverks maóista.

Búist var við að tala látinna hækkaði þar sem talið var að farþegar væru enn fastir í vögnum sem eyðilögðust í árekstrinum. Um 200 manns slösuðust, nokkrir þeirra lífshættulega.

Hraðlestin var á leiðinni frá Kalkútta til Mumbai og fór út af sporinu á afskekktu svæði í Vestur-Bengal, nálægt sambandsríkinu Jharkhand, höfuðvígi hreyfingar indverskra maóista. Áreksturinn varð klukkan hálf tvö um nóttina að staðartíma og flestir farþeganna voru sofandi.

Maóistarnir hófu uppreisn árið 1967 í þorpinu Naxalbari í Vestur-Bengal og hún breiddist út um sveitahéruð í mið- og austurhluta Indlands. Talið er að vopnaðir liðsmenn hreyfingarinnar séu um 10.000-20.000. Uppreisnin hefur kostað yfir 6.000 manns lífið.

Maóistarnir hafa hert uppreisnina á síðustu mánuðum með árásum á hermenn, lögreglumenn, opinberar byggingar, lestir, rútur og lestastöðvar. Mannskæðasta árás þeirra til þessa var gerð í apríl þegar maóistar felldu 76 hermenn í árás úr launsátri.

Fyrr í vikunni hvöttu maóistar til mótmæla í fimm sambandsríkjum, meðal annars Vestur-Bengal. Mótmælin áttu að hefjast í gær og standa til miðvikudagsins kemur.