Blanda Heiðar Helguson er einn helsti reynsluboltinn í liðinu sem mætir Andorra. Hér er hann fremstur í flokki og með honum Arnór Smárason, Skúli Jón Friðgeirsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Ólafur Ingi Skúlason, Jón Guðni Fjóluson og Jóhann Berg Guðmundsson, sem flestir enn eru gjaldgengir í 21-árs landslið Íslands.
Blanda Heiðar Helguson er einn helsti reynsluboltinn í liðinu sem mætir Andorra. Hér er hann fremstur í flokki og með honum Arnór Smárason, Skúli Jón Friðgeirsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Ólafur Ingi Skúlason, Jón Guðni Fjóluson og Jóhann Berg Guðmundsson, sem flestir enn eru gjaldgengir í 21-árs landslið Íslands. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Víðir Sigurðsson vs@mbl.

Viðtal

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Við teflum fram stórum og skemmtilegum hópi ungra manna í þessum leik við Andorra og ég er hrikalega spenntur að sjá hvernig þeir bregðast við í alvöru landsleik,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær.

Hann hefur síðustu daga búið lið sitt undir vináttuleikinn við Andorra sem hefst klukkan 16 á Laugardalsvellinum. Ólafur teflir fram ungu liði, stórum kjarna úr 21 árs landsliðinu sem hefur staðið sig afar vel að undanförnu, ásamt nokkrum reyndari leikmönnum.

Ólafur var spurður hvort þessi leikur myndi mögulega marka upphafið að framtíðarlandsliði Íslands. Hvort þarna væri kominn sá kjarni leikmanna sem jafnvel yrði uppistaðan í liðinu í undankeppni EM sem hefst í haust.

Stór hópur ungra leikmanna

Þjálfarinn tók vel í það. „Já, það vill svo til að núna eigum við stóran og breiðan hóp af ungum leikmönnum sem eru margir hverjir orðnir mjög góðir. Það jákvæða er að flestir þeirra eru fastamenn í sínum liðum. Ég er sannfærður um að margir þeirra verða okkar framtíðarlandsliðsmenn.

Frá því ég tók við landsliðinu hef ég gefið fullt af ungum strákum tækifæri. Strákum sem ég tel að eigi eftir að verða landsliðsmenn, hvort sem það verður undir minni handleiðslu eða annarra. Það hef ég gert til að leyfa þeim að finna smjörþefinn og til að þeir séu klárir þegar farið verður fram á að þeir taki við alvöru hlutverkum.“

Ólafur fær aðeins tvo leiki, gegn Andorra og Liechtenstein, til að búa liðið undir undankeppni EM sem hefst í byrjun september með heimaleik við Norðmenn.

„Eins og ég hef áður sagt, hefði ég viljað spila gegn sterkari þjóð en því miður varð ekkert úr öðrum leik sem átti að fara fram um þetta leyti. Það hefði verið gaman að fá einn slíkan leik, gegn mjög öflugum mótherjum, til að reyna virkilega á strákana áður en kæmi að fyrsta leiknum í alvörukeppni í haust.“

Nú er boltinn hjá þeim

„En ég er búinn að segja við þessa stráka að nú sé ég að leita að þeim kjarna leikmanna sem ég fer með í næstu keppni. Þeir eigi allir með tölu möguleika á að vera í þeim kjarna og leikurinn við Andorra er stór þáttur í því. Nú er boltinn hjá þeim, nú er það þeirra að standa sig og sýna að þeir eigi heima í landsliðinu. Ég er feiknarlega spenntur að sjá hvernig þeir bregðast við.

Lið Andorra hefur verið þekkt fyrir að spila stífan varnarleik, verjast með kjafti og klóm og spila eins gróft og dómarinn leyfir. Ólafur kveðst viðbúinn því.

Höfum verið of hægir

„Já, það hefur nú oft háð okkur að geta spilað nægilega vel gegn þeim liðum sem sögð eru vera lakari en við. Við höfum lent í vandræðum með að stjórna leikjunum, það hefur oftar en ekki gengið illa, og ég tel að það sé vegna þess að við höfum verið of hægir í aðgerðum okkar. Mótherjarnir hafa átt auðvelt með að lesa okkur og færa varnarlínu sína fram og til baka.

Ég hef sagt strákunum að ég vilji að þeir láti boltann ganga hratt. Ég veit að þeir geta það, þeir hafa tæknina og leikskilninginn til þess. En fyrst verðum við að mæta Andorramönnum í baráttunni. Við vitum að þeir spila fast og verjast af krafti. Það er ljóst að við þurfum að eyða einhverjum mínútum í að mæta þeim í slíkri baráttu, og viljum því senda talsvert af háum boltum á þá og setja á þá pressu í byrjun. Svo gefst okkur tími eftir það til að taka boltann niður og spila honum.

Sé að þeir hlakka mikið til

Svona leikur reynir fyrst og fremst á karakterinn og viljann, og það að þora að taka frumkvæði. Ég veit að þessir strákar standa sig. Ég sé í augunum á þeim að þeir hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni. Þarna eru drengir sem hefur verið hampað töluvert, og ekki að ástæðulausu. Þeir hafa átt það skilið, og nú þyrstir þá í að spila og sýna hvað þeir geta.“

Aron Einar Gunnarsson og Kristján Örn Sigurðsson meiddust á æfingum landsliðsins fyrir helgina og verða ekki með. Ólafur saknar þeirra.

„Það er vont að missa bæði Aron og Kristján. Aron hefur verið fastamaður síðan ég valdi hann, hefur þroskast og vaxið og er orðinn allt annar leikmaður en þegar ég valdi hann fyrst. Kristján hefur verið akkerið í vörninni, spilað feiknarlega vel og verið með þann hraða sem við höfum þurft í miðri vörninni. En eins og alltaf þýðir þetta bara að nýir menn fá tækifæri,“ sagði Ólafur Jóhannesson.

„Þýðir ekkert að hætta að skora núna“

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég hef beðið nokkuð lengi eftir að vera valinn í landsliðið. Nú kom loksins að því og ég er fullur eftirvæntingar fyrir leikinn við Andorra,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson, nýliði í íslenska landsliðinu í knattspyrnu.

„Mér gekk vel í vetur hjá Reading og gerði mér þar af leiðandi vonir um að fá tækifærið fyrr en svo var ekki. Nú kom röðin að mér og þar af leiðandi er ég mjög ánægður,“ sagði Gylfi Þór áður en hann hélt á æfingu með íslenska landsliðinu. Hann sló svo sannarlega í gegn með Reading á nýliðinni leiktíð og var m.a. markahæsti leikmaður liðsins með 20 mörk.

Gylfi Þór lék síðast með Reading 2. maí og því eru liðnar rétt tæpar fjórar vikur frá því að hann tók síðast þátt í alvöruleik. Hann segir það ekki eiga að há sér gegn Andorra í dag. „Ég fékk góðan tíma til þess að ná úr mér þreytunni eftir keppnistímabilið. Síðan fór maður af stað aftur við æfingar; að hlaupa og lyfta, þannig að ég er í fínu formi um þessar mundir,“ segir Gylfi Þór sem skrifaði undir nýjan samning við Reading í vikunni.

Gylfi Þór sagðist að sjálfsögðu vonast til þess að fá tækifæri til þess að vera í byrjunarliðinu gegn Andorra á Laugardalsvelli í dag. „Ég vil alltaf byrja en ákvörðun um slíkt er höndum Óla þjálfara. Ef ég byrja á bekknum þá verður bara að hafa það og nota tækifærið ef mér verður skipt inn á einhverntímann í leiknum,“ segir Gylfi Þór. „Þetta kemur allt í ljós á laugardaginn.“

Gylfi Þór segir að íslenska landsliðið ætti að vinna en vissulega sé ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Reikna megi með að Andorramenn verjist aftarlega á leikvellinum. „Vonandi getum við stjórnað leiknum og sett nokkur mörk á Andorramennina hér á heimavelli. Það er mikilvægt að vinna leikinn. Vonandi næ ég að setja eitt mark. Það þýðir ekkert að hætta að skora núna,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson, nýliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Tveir leikir til undirbúnings fyrir EM

» Ísland leikur tvo leiki til undirbúnings áður en undankeppni EM hefst. Leikinn við Andorra í dag og svo er spilað við Liechtenstein á Laugardalsvellinum 11. ágúst.
» Ísland mætir Noregi á Laugardalsvelli í fyrsta leik undankeppni EM 3. september og leikur síðan við Dani á útivelli 7. september. Þriðji leikur haustsins er gegn Portúgal á Laugardalsvelli 12. október.