Jón Bjarnason
Jón Bjarnason
Eftir Jón Bjarnason: "Andstaða mín við að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði lagt niður er byggð á málefnalegum forsendum..."

Flokksráð er samkvæmt 29. gr. laga VG æðsta vald í öllum málefnum VG á milli landsfunda. Í janúar sl. var samþykkt skýr ályktun vegna þeirra áforma að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið: „Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 15.-16. janúar 2010, skorar á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu stjórnarráðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref verða tekin. Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára. Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Landbúnaður og sjávarútvegur

Ljóst er að ef til aðildar að ESB kemur muni sjávarútvegur og landbúnaður þurfa að færa stórar fórnir. Þannig er krafa framkvæmdastjórnar ESB sem birtist í álitsgerð vegna umsóknar Íslands sú að alger umbreyting fari fram á skipulagi landbúnaðarmála og lyft verði banni við veiðum erlendra skipa í íslenskri landhelgi og eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækjum. Afstaða mín gegn inngöngu í ESB er ljós og á henni hef ég staðið í ríkisstjórn og á Alþingi.

Samkvæmt skoðanakönnunum er mikill meirihluti Íslendinga mér sammála í þessu. Hins vegar vinnur ráðuneyti mitt alla þá vinnu sem ákvörðun Alþingis í þessu máli krefst. Ég vek einnig athygli á að öll hagsmunasamtök í sjávarútvegi og landbúnaði og mörg sveitarfélög á landsbyggðinni hafa lýst sig andvíg áformum um að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eða taka undan því grunnstofnanir þess. Sama afdráttarlausa afstaða mætir mér hvarvetna á landsbyggðinni sem lítur á þessi áform sem beina ógn. Ýmsir telja nú mikilvægast að veikja stjórnsýslulega stöðu sjávarútvegs og landbúnaðar til að auðvelda aðildarferlið að ESB.

Andstaða mín við að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði lagt niður er byggð á málefnalegum forsendum og í samræmi við stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í ljósi umræðunnar síðustu daga um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarráðinu skal hér áréttað að ég stend fast með höfuðatvinnugreinunum okkar og landsbyggðinni í þessu máli.

Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Höf.: Jón Bjarnason