Teigsskógur Þingmaðurinn telur veg um Teigsskóg eitt brýnasta verkefnið í samgöngumálum í dag.
Teigsskógur Þingmaðurinn telur veg um Teigsskóg eitt brýnasta verkefnið í samgöngumálum í dag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Einar K.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur í bígerð að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga sem heimila myndi vegagerð um Teigsskóg í Austur-Barðastrandarsýslu sem og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar við mynni þeirra. Einar vonast til að samstaða náist um framgang málsins meðal þingmanna Norðvesturkjördæmis sem hafa frumvarpsdrögin í skoðun. Þingmaðurinn kynnti þessa fyrirætlan sína á fundi á Patreksfirði á dögunum. Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum hafa lengi kallað eftir vegabótum á þessum slóðum. Í dag liggur vegurinn yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls, en sú leið er snjóþung og vegurinn ekki í samræmi við kröfur dagsins í dag.

„Vegagerð á þessum slóðum er brýnasta verkefnið í samgöngumálum á landinu. Málið hefur velkst úr einum stað í annan í langan tíma og nauðsynlegt er að höggva á hnútinn og þá er lagasetning sem myndi heimila framkvæmdir á þessum slóðum eðlilegasta leiðin,“ segir Einar.

Heimamenn í Barðastrandarsýslum sameinuðust á sínum tíma um þá tillögu að vegstæði sem fyrr er lýst. Fleiri hugmyndir voru í deiglunni og samþykkti Skipulagsstofnun eina þeirra en ekki þá að vegurinn yrði lagður um skóginn og firðirnir tveir þveraðir. Jónína Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, komst hins vegar að annarri niðurstöðu og samþykkti framkvæmdina með tilliti til umhverfissjónarmiða. Þeim úrskurði ráðherrans var hnekkt með dómi Hæstaréttar.

Til háborinnar skammar

Með tilliti til þessa alls segir Einar Kr. Guðfinnsson mikilvægt að opna málið algjörlega upp á nýtt og setja lög þar sem framkvæmdir fengju grænt ljós. „Það er algjörlega óviðunandi að vegagerð á þessum slóðum geti ekki haldið áfram þegar peningar til verksins eru til staðar. Í raun er þetta til háborinnar skammar. Markmið þess frumvarps sem er hér lagt fram, er að rjúfa þennan grafalvarlega vítahring og heimila vegagerðina með lögum,“ segir Einar. Undirtektirnar segir hann hafa verið góðar og vonast til að hægt veri að leggja málið fram nú á vorþingi.