Á fleygiferð Ökumaðurinn er logandi hræddur enda fjórhjólið bersýnilega á miklum hraða. Fjórhjólin komast á mun meiri hraða en blaðamaður hélt.
Á fleygiferð Ökumaðurinn er logandi hræddur enda fjórhjólið bersýnilega á miklum hraða. Fjórhjólin komast á mun meiri hraða en blaðamaður hélt. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustunni bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu í nágrenni við höfuðborgina. Ísklifur, köfun, kanóferðir og margt fleira. Markaðssetning þjónustunnar er vissulega miðuð að erlendum ferðamönnum en það er stórskemmtilegt að vera ferðamaður í eigin landi.

Prufutíminn

Jónas Margeir Ingólfsson

jonasmargeir@mbl.is Ég hef aldrei verið með sérstaka tækjadellu. Ég hef ekki einu sinni setið mótorhjól en einhvernveginn hefur mig alltaf langað til að prófa fjórhjól. Þegar ég fékk þetta verkefni hafði ég því samband við Arctic Adventures og þau smelltu mér beint inn í bíl og af stað.

Ótrúleg veðurblíða

Tólf stiga hiti og ekki ský á himni. Ég stíg út úr bílnum við Bolöldu, mótokrosssvæði sem er austan við Sandskeið á móti Litlu kaffistofunni. Úr öðrum bíl stígur alltof mikið klætt par. Sjálfur var ég auðvitað á stuttermabol með sólgleraugu, enda komið sumar. Þau í þykkum úlpum, vafin í trefla og alls kyns sjöl með húfur og vettlinga – aukateppi inni í bílnum.

Andartak störum við á klæðaburð hvert annars. Þögn. „Vita þau ekki hvað sumar er?“ hugsa ég. „Er þetta brjálaður maður?“ hugsa þau. Eftir dálítil vandræðalegheit rétti ég þeim spaðann. Jú, það hlaut að vera, þetta eru útlendingar. Kynna sig sem Chris og Melissu, vel klædda parið frá Toronto. Eftir stutt how do you like Iceland?-hjal kallar til okkar maður nokkur og kynnir sig sem Magnús, fjórhjólaferðastjóra. Hann bar með sér strax við fyrstu kynni að vera ofboðslega mikið ábyrgur. Það veitti mér óneitanlega vissa ró, enda ekki laus við smá fiðring. Sem sagt, Magnús bendir okkur með sér inn í einhvern skúrinn. Þar erum við færð í viðeigandi búning. Hjálmur, pollabuxur, rykug flíspeysa og vettlingar.

Þarna stöndum við tilbúin til farar, þegar Magnús kemur með dálítinn pappírssnepil og biður okkur að undirrita. Það var sem sagt einhverskonar skriflegur samningur: „Ég, undirritaður, afsala mér öllum rétti mínum, skyldi ég lenda í slysi eða deyja í þessari fjórhjólaferð.“ Eitthvað í þá áttina. Ekki sérlega traustvekjandi en jók vissulega varkárni manns. Blessunarlega kom ekkert fyrir og Hæstiréttur slapp þannig við stóra fjórhjólamálið sem ég hefði að sjálfsögðu höfðað.

Kröftug farartæki

Þá var komið að því, tryllitækin dregin fram og eftir snarpa yfirferð um helstu stjórntæki þeirra settumst við á bak. Þetta eru nú engin geimvísindi, bara bensíngjöf og bremsa. Næst spyrnti Magnús af stað og við eltum hann hálfskjálfandi af reynsluleysi á þessum kröftugu farartækjum. Ferðinni var heitið inn Jósepsdalinn.

Fjórhjólin komast á mun meiri hraða en ég hélt. Kraft urinn er slíkur að maður er í hættu að skjótast af hjólinu ef maður tekur of hratt af stað. Jarðvegurinn var skrafþurr og rykið hvirflaðist upp undan fjórhjóli Magnúsar sem var fremstur í röðinni. Fínkorna rykið komst auðveldlega inn fyrir gleraugun og í augun á manni. Tárin flæddu úr rykugum augunum en gamanið og spennan var þvílík að maður fann nánast ekki fyrir því.

Eftir u.þ.b. tíu mínútna ferð blasti Jósepsdalurinn við okkur. Dalurinn skartaði sínu fegursta í sumarsólinni. Blár og bjartur himinn, grænn grasbali í dalbotninum, útlenda parið vafið í vetrargallann og fjórhjólahlífarnar í ofanálag og svo þeysti maður um á ógnarhraða í faðmi náttúrunnar. Ég er ekki frá því að nákvæmnlega þarna hafi ég áttað mig á því að sumarið væri loks komið. Þegar veðrið og náttúran magna gleðina í leiknum og spennuna.

Stórhættulegt stökk

Ferðinni var næst heitið niður að Sandskeiði. Þar er fjórhjólabraut með allskonar beygjum, hólum og hoppum. Fjölmargar flugvélar voru í snertilendingaæfingum á flugvellinum enda kjörið veður til þess.

Ég er mikill áhugamaður um flugvélar sem varð til þess að augun beindust gjarnan að vélunum en ekki veginum á leið okkar aftur að Bolöldu. Þannig tókst mér að keyra hjólið af veginum og á einhvern hól sem skagaði þarna upp úr annars flötum jarðveginum. Fjórhjólið lét það ekki stöðva sig heldur tók örlítið stökk yfir hólinn og einhvers staðar í loftinu ákvað ég að einbeita mér að akstrinum frekar en flugvélunum. Stökkið var örugglega ekki hátt, kannski örfáir sentimetrar frá jörðu, en byrjandinn miklar allt fyrir sér. Þetta voru því í mínum augum fleiri metrar sem ég stökk upp í loftið. Að mínu mati var ég í bráðri hættu að rekast í eina flugvélina á lokastefnu. Þegar við stigum af hjólunum vorum við rykug í framan með drullugan tárastraum niður kinnar en öll skælbrosandi.

Það er merkilegt hvað manni stendur mikið til boða á Íslandi. Ég held að flestir Íslendingar átti sig ekki á þeirri fjölbreyttu afþreyingu sem fyrirtækjaflóran í ferðaþjónustu heldur úti. Fyrir mitt leyti mun ég tvímælalaust hugsa mig tvisvar um hvort eitthvað meira spennandi standi mér til boða næst þegar ég fer í bíó eða keilu.

Fjölbreytt ferðaþjónusta

Það er margt spennandi hægt að gera á Íslandi enda fjölmörg fyrirtæki sem starfa hér í ferðaþjónustu. Arctic Adventures hefur verið starfrækt frá árinu 1983 en u.þ.b. eitt hundrað manns starfa hjá fyrirtækinu í dag.

Að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins nýta Íslendingar sér þjónustu þess jafnt og útlendingar. Mest sækja Íslendingar River Rafting í hópferðum af hvers konar tilefni en einnig er algengt að fjölskyldur fari saman til að gera sér dagamun. Fyrirtækið býður upp á fjölbreytta afþreyingu á borð við ísklifur, snjósleðaferðir, köfun, kanósiglingu og margt fleira.