Rut Kristjánsdóttir fæddist 2. mars 1936 á Siglufirði. Hún lést á heimili sínu þann 17. apríl sl. Foreldrar hennar voru Kristján Eiríksson trésmiður, f. 22. október 1894 í Sölvanesi, Skagafirði, d. 22. október 1966, og Sigrún Sigurðardóttir húsfreyja, f. 8. maí 1913 á Sauðárkróki, d. 9. júní 1977. Rut var 5. elst af 14 systkinum og var 7 ára sett í fóstur í Víðigerði í Eyjafirði. Hún vann ýmis bústörf á sínum yngri árum og vann m.a. tvö sumur sem kaupakona í Litla-Árskógi þar sem hún kynntist eiginmanni sínum, Jóni Vigfússyni. Vorið 1955 lauk hún húsmæðraskólaprófi frá Húsmæðraskólanum Laugum. Hún fluttist síðan til Reykjavíkur og stofnaði fljótlega heimili í Auðarstræti og giftist Jóni Vigfússyni sem starfaði sem leigubílstjóri. Árið 1962 fluttust þau ásamt fjölskyldu sinni í Sólheima 25.

Börn þeirra eru Leifur Stefánsson, f. 2. apríl 1958, en hann ólst ekki upp hjá foreldrum sínum, Kristján Eldjárn Jónsson, f. 4. desember 1960, Vigdís Berglind Jónsdóttir, f. 7. febrúar 1963, og Heimir Smári Jónsson, f. 24. mars 1971.

Rut vann ýmis störf um ævina, fyrir utan uppeldi eigin barna og heimilisstörf var hún í umönnun aldraðra við elliheimilið Grund, barnagæslu í heimahúsi, fiskvinnslu og heimilishjálp en lengst af, þ.e. frá 1972-1996, starfaði hún hjá Póstinum.

Útför Rutar fór fram í kyrrþey.

Þú yfirgafst þennan heim skyndilega, mamma mín.

Þú varst mér bæði vinkona og móðir. Hvar á ég að byrja? Þú elskaðir bækur, myndlist og tónlist. Þú varst svo jákvæð og lifandi persóna og opin fyrir öllu og á undan þinni samtíð. Fyrir utan það að vera okkur krökkunum alltaf til halds og trausts sem móðir, vinna fullan vinnudag og vera í námsflokkunum á kvöldin tókst þú ávallt af fullum krafti þátt í lífi okkar. Þú fórst með okkur í útilegur, reiðtúra og heimsóttir mig nokkrum sinnum einsömul til Þýskalands og við skemmtum okkur konunglega saman. Við keyrðum um Þýskaland til Hollands og Belgíu, fórum með skipi eftir Móseldalnum og þú naust þess að ferðast og upplifa eitthvað nýtt. Næst á dagskrá hefði verið að ferðast til Noregs og heimsækja elsta soninn.

Ég heiðra mína móður vil

af mætti sálar öllum

ég lyfti huga ljóssins til

frá lífsins boðaföllum.

Er lít ég yfir liðna tíð

og löngu farna vegi

skín endurminning unaðsblíð

sem ársól lýsi degi.

Nú er of seint að þakka þér

og þungu létta sporin,

þú svífur fyrir sjónum mér

sem sólargeisli á vorin.

Þú barst á örmum börnin þín

og baðst þau guð að leiða

ég veit þú munir vitja mín

og veg minn áfram greiða.

(Eiríkur Einarsson í Réttarholti.)

Grátið ei við gröf mína

ég er ekki þar.

Ég lifi í ljúfum blænum

er strýkst um vanga þinn.

Er norðurljósin leiftra

þá njóttu þess að sjá

að orku mína og krafta

þú horfir þar á.

(Þýð. Helga S. Sigurbjörnsd) Elsku mamma, við söknum þín. Takk fyrir alla þá ást, umhyggju og gleði sem þú veittir okkur öllum. Við biðjum Guð og englana að varðveita þig.

Fyrir hönd fjölskyldunnar,

Vigdís Berglind (Linda).

Ég vil minnast ömmu minnar sem var jörðuð í kyrrþey að hennar ósk. Mér þótti svo vænt um hana og ég veit að hún er komin á góðan stað núna. Alltaf þegar ég kom suður til hennar og afa fór hún með mig í Kringluna eða Smáralind og stundum löbbuðum við Laugaveginn. Það er svo gaman að eiga þá minningu um hana ömmu. Stundum þegar ég fór með frænku minni í búðir, þá sagði hún alltaf, ég skil vel að þú viljir fara með unga fólkinu, og við hlógum. Við áttum svo margar góðar minningar saman og ég gleymi þeim aldrei. Ég geymi þær fyrir okkur, elsku amma mín.

Ég hef mjög gaman af hestum og amma gaf mér allt hestadót sem hún átti, eins og hnakk, nasamúla o.fl. sem hún hafði geymt og ég ætla að varðveita það. Hún var alltaf að gefa mér eitthvað en það besta sem hún gaf mér var ást og umhyggja.

Hún var sko svalasta amma í heimi, hún var á facebook og msn. Hún keypti sér fartölvu og var á tölvunámskeiði. Hún var svo mikil tæknimanneskja og mikið fyrir sjónvörp, tölvur, allt sem tengist tækjum. Amma mín var aðeins 74 ára þegar hún varð bráðkvödd. Við pabbi vorum heima þegar síminn hringdi, systir pabba var í símanum og sagði okkur sorgarfréttirnar. Ég var búin að finna á mér að eitthvað myndi gerast, eitthvað slæmt. Mér var búið að líða illa allan daginn. Ég grét tvö kvöld í röð eftir þessar sorgarfréttir og mér er búið að líða svo illa alla daga síðan þú kvaddir. Ég er ekki að fatta þetta og hugsa alltaf, af hverju kom þetta fyrir ömmu mína? Fæ ég aldrei að sjá hana aftur? En ég finn alveg að hún mun fylgjast með mér og það huggar mig. Eftir að hún dó þá hefur svo margt fólk knúsað mig og talað við mig og gefið mér blóm, ást og umhyggju og það er svo gott að vita af öllum sem þykir vænt um mig.

Elsku amma, ég ætla biðja Guð að geyma þig og vertu hjá afa og okkur öllum.

Þín

Sjöfn Særún.