Aðgát Sumt er betur látið ósagt. Frá verksmiðju í Sri Lanka.
Aðgát Sumt er betur látið ósagt. Frá verksmiðju í Sri Lanka. — Reuters
Kannast ekki flestir við að hafa látið eitthvað flakka í vinnunni en undir eins óskað þess að hafa ekki opnað munninn? Fólk er misflinkt á félagslega svellinu og mislagið að lesa í aðstæður og einstaklinga.

Kannast ekki flestir við að hafa látið eitthvað flakka í vinnunni en undir eins óskað þess að hafa ekki opnað munninn? Fólk er misflinkt á félagslega svellinu og mislagið að lesa í aðstæður og einstaklinga.

Eins og það getur treyst böndin að komast að því að kollegi eða viðskiptavinur er skoðanabróðir í eldheitum málaflokki þá getur verið stórhættulegt og skemmandi að vekja máls á einhverju sem getur stuðað.

Grunnur lagður að vinsældum

Vefurinn Young Money, sem helgaður er fræðslu um peninga- og framamál fyrir ungt fólk, birtir lista yfir hluti sem ýmist er æskilegt eða óæskilegt að gera eða færa í tal á vinnustaðnum. Vinsældir skipta nefnilega ekki síður máli en hæfni í starfi þegar kemur að góðum starfsframa.

Fyrst ber að nefna að heilsa fólki með handabandi, kynna sig með nafni og sýna einlægan áhuga á viðmælandanum og því sem hann er að tjá sig um. Það borgar sig að vera stundvís, brosmildur, bjartsýnn og hress og hrósa af einlægni fyrir það sem vel er gert. Deildu heiðrinum með þeim sem eiga það skilið þegar vel tekst til, og vertu manneskja sem aðrir geta leitað til og stólað á.

Ef vinnufélagarnir fara út að borða í hádeginu, eða einfaldlega saman í hóp í mötuneytið, farðu þá með a.m.k. endrum og sinnum til að blanda geði. Reyndu svo að mæta snemma og hætta seint, a.m.k. fyrstu þrjá mánuðina í starfi til að gefa þá mynd af þér að þú sért vinnuþjarkur.

Eins og heitan eldinn

En svo er það sem ber að varast, og þá fyrst og fremst viss samtalsefni. Young Money.com nefnir eftirfarandi: stjórnmál, trúmál, laun og peningamál, kynlíf, dauðarefsingu, aðra kynþætti og menningarheima, hversu miklu betra var í öðru starfi, hversu mikið klárari fyrri stjórnendur voru, hversu mörg mistök voru gerð áður en þú mættir á svæðið og hversu illa þér er við borgina sem þú starfar í.

Allt eru þetta, að sögn Young Money, umræðuefni sem sjaldan fá fólk til að kunna betur við þig og eru líklegri til að stuða fólk og ögra. Aðeins ef viðmælandinn er algjörlega sammála getur samtal á þessum nótum skapað aukna virðingu og treyst böndin, en álitshnekkir er mun líklegri.

Ekki er þar með sagt að menn eigi að vera skoðanalaus dauðyfli í vinnunni, en það er hyggilegra að halda sig við skaðlausari umræðuefni og faglegt tal.